„Það er til lítils að slökkva eldinn ef upptök hans eru ennþá fyrir hendi. Þá mun kvikna bál að nýju. Að ráðast að upptökum eldsins er skilvirkara, ódýrara og bjargar fleiri mannslífum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann ræddi um stöðu mála í Sýrlandi og Jemen.
Guðlaugur Þór beindi að orðum sínum að aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, og sagði þau þurfa að standa saman. „Sameinuðu þjóðirnar eru aldrei sterkari en aðildarríkin leyfa. Við, aðildarríkin, verðum að stíga upp og styðja við Sameinuðu þjóðirnar og störf framkvæmdastjórans,“ sagði Guðlaugur Þór, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Í New York hefur Guðlaugur Þór einnig átt fund með Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, þar sem þróun mála í Evrópu, framkvæmd EES samningsins og Brexit voru meðal umræðuefna.
Staðan í Sýrlandi og Jemen er álitin grafalvarleg, enda hafa langvarandi átök leitt til hörmunga fyrir óbreytta borgara og dauðsfalla mörg hundruð þúsund íbúa.
Í Sýrlandi er talið að allt að 10 milljónir manna séu á flótta, ýmist innanlands eða utan, en íbúar eru tæplega 19 milljónir, samkvæmt upplýsingum Alþjóðabankans. Í Jemen er ástandið víða skelfilegt, þar sem erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum og matvælum til flóttamanna.