Reitir fasteignafélag hf. hefur ákveðið að ganga til samninga við eigendur Vínlandsleiðar ehf., um kaup Reita á félaginu. Heildarvirði viðskiptanna er 5,9 milljarðar króna og verða kaupin fjármögnuð með handbæru fé, lánsfé og yfirtöku skulda félagsins.
Vínlandsleið á um 18 þúsund fermetra af húsnæði, en þessar fasteignir eru Vínlandsleið 2 til 4, 6 til 8, 12 til 14 og 16, og einnig Norðlingabraut 14.
Eignirnar eru allar í útleigu hjá samtals tólf leigutökum, þar á meðal eru Sjúkratryggingar Íslands, Matís ohf., Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Lyfjastofnun og Fjölmennt. Leigutekjur á ári eru um 440 milljónir og meðaltími leigusamninga 13,5 ár.
Leiða kaupin til þess að áætlaður rekstrarhagnaður (NOI) Reita hækkar um 350 milljónir króna á ársgrundvelli, að því er segir í tilkynningu frá Reitum til kauphallar Íslands.
Afhending eignanna mun fara fram þegar fyrirvörum vegna viðskiptanna hefur verið aflétt en fyrirvarar eru gerðir um niðurstöður áreiðanleikakannana, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki stjórnar Reita á kaupunum.
Ráðgjafi seljanda var fyrirtækjaráðgjöf KPMG.
Reitir er eitt þriggja fasteignafélaga sem skráð eru á markað, en hin tvö eru Eik og Reginn. Markaðsvirði Reita nemur nú rúmlega 65 milljörðum króna, en allir stærstu hluthafar félagsins eru íslenskir lífeyrissjóðir. Stærsti einstaki eigandinn, með 14,4 prósent hlut, er Gildi lífeyrissjóður.