Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði í dag þriggja manna hæfnisnefnd í samræmi við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands til að meta hæfni umsækjenda um embætti aðstoðarseðlabankastjóra.
Nefndina skipa Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands, og Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
Embætti aðstoðarseðlabankastjóra var auglýst laust til umsóknar þann 21. febrúar sl. og sóttu 14 um embættið.
Tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka og einn umsækjandi uppfyllti ekki almenn hæfisskilyrði laga um Seðlabanka Íslands.
Ráðgert er að endanleg niðurstaða hæfnisnefndar liggi fyrir eigi síðar 30. maí en Arnór Sighvatsson er aðstoðarseðlabankastjóri.Umsækjendurnir um starfið eru:
Daníel Svavarsson, hagfræðingur.
Guðrún Johnsen, hagfræðingur.
Stefán Hjalti Garðarsson, reikni- og fjármálaverkfræðingur.
Jón Þ. Sigurgeirsson, viðskiptafræðingur.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur.
Ludvik Elíasson, hagfræðingur.
Ólafur Margeirsson, hagfræðingur.
Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur.
Tryggvi Guðmundsson, hagfræðingur.
Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur.
Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur.
Uppfært 22:53: Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur, hefur dregið umsókn sína til baka.