Ólíklegt þykir að lífeyrissjóðir í hópi stærstu hluthafa HB Granda ákveði að taka yfirtökutilboði Brims og selja sinn hlut í félaginu.
Frá þessu er greint í Markaðnum í dag, en lífeyrissjóðir eiga alls um 44 prósent hlut í félaginu.
Í Markaðnum kemur enn fremur fram að erlendir bankar kunni að hafa áhuga á því að koma að fjármögnun viðskipta með hlutafé í HB Granda, en eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær þá er um verulega stóran bita að ræða, þegar kemur að fjármögnun, ef stór hluti hluthafa HB Granda ákveður að taka yfirtökutilboði Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brims. Miðað við það þá er félagið rúmlega 65 milljarða virði, en markaðsvirði félagsins nú er 61,6 milljarður króna.
Viðmælendur Markaðarins í röðum lífeyrissjóðanna segja vilja ekki standa til þess að eina sjávarútvegsfyrirtækið á hlutabréfamarkaði hverfi af markaðinum. „Eins benda þeir á að eina leiðin fyrir sjóðina til þess að koma að grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar sé að eiga hlut í HB Granda. Með kaupum Brims á þriðjungshlut í HB Granda skapast veruleg tækifæri til hvors tveggja sóknar og samlegðar,“ segir í Markaðnum.