Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, ávarpaði Bandaríkjaþing með ræðu í dag, og eru fréttaskýrendur flestir sammála um, að ræðan hafi verið nær samfelld gagnrýni á opinbera stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, um að setja bandaríska hagsmuni alltaf í fyrsta sæti (American First).
Macron gagnrýndi uppgang þjóðernishyggju og sagði stjórnmálin þurfa að þróast á forsendum þess að allir væru velkomnir í samfélögum. Hinn alþjóðavæddi heimur þyrfti að vera móttækilegur fyrir ólíkum viðhorfum. „Ef við opnum augu okkar meira, verðum víðsýnni, þá náum við árangri,“ sagði Macron.
Þá sagði hann það ekki valkost að tefja aðgerðir í baráttunni gegn mengun og hlýnun jarðar. Hann sagði þjóðir heimsins ekki hafa tíma til þess að deila um mál sem væru augljós. „Það er engin pláneta B,“ sagði Macron, uppskar lófklapp frá þeim hluta Bandaríkjaþings sem hefur barist fyrir samstilltum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar.
Eins og kunnugt er hefur Trump dregið Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu en auðjöfurinn Michael Bloomberg, hefur þegar sagst ætla að greiða þá upphæð sem vanti upp, til að Bandaríkin geti staðið við skuldbindingar á grundvelli samkomulagsins. Þá hafa allar stærstu borgir Bandaríkjanna, og stærstu ríkin sömuleiðis, ákveðið að fylgja Parísarsamkomulaginu og þeim skilyrðum þess sem snýr að þeim.
Macron sagði í ræðu sinni, að Bandaríkin væri um margt vagga lýðræðislegar þróunar og hins alþjóðavædda heims eins og við þekktum hann. Hann sagði alþjóðaviðskipti hafa greitt fyrir framförum, og varaði sterklega við tollastríðum. Hagsmunir heimsins væru best verndaðir með alþjóðasamstarfi, á víðum grundvelli.