Íslenskir lífeyrissjóðir eiga nú allt að 60 prósent hlutafjár í fasteignafélögunum þremur í kauphöll Íslands, Reitum, Eik og Reginn.
Samanlagt markaðsvirði þeirra nemur um 137,5 milljörðum króna, en þau hafa öll hækkað umtalsvert í verði frá skráningu þeirra. Verðmiðinn hefur þó ekki mikið hækkað að undanförnu, enda hefur vísitala hlutabréfamarkaðarsins svo til staðið í stað á undanförnu ári, en hækkunin nemur um 0,1 prósenti á því tímabili.
Virði fasteigna þessara félaga hefur hækkað hratt á undanförnum árum, með hækkun fasteignamats húsnæðis og hækkun leigutekna, en í lok árs nam virði eigna félaganna þriggja 330,5 milljörðum króna.
Reitir er stærsta félagið en virði eigna félagsins á þeim tíma nam 140,5 milljörðum. Hjá Eik nam virði eigna félagsins um 91 milljarði og hjá Reginn tæplega 100 milljörðum.
Tvö fasteignafélög til viðbótar eru á leið á markað en það eru Heimavellir, þar sem útboð er fyrirhugað í byrjun maí, og síðan Almenna leigufélagið, sem er í eigu Gamma.
Heimavellir voru með eignir upp á um 50 milljarða í lok árs í fyrra, hagnaðurinn var 2,7 milljarðar og eigið féð 17,5 milljarður.
Nú þegar hefur bandarískur fjárfestingasjóður keypt hlut í félaginu fyrir um 300 milljónir króna en hann endurfjármagnaði einnig skuldir félagsins, upp á um þrjá milljarða, fyrir milligöngu Fossa markaða.
Heildareignir Almenna leigufélagsins námu um 42 milljörðum í loka árs í fyrra, og eigið féð nam 11,4 milljörðum. Hagnaður af rekstri félagsins var 1,5 milljarður króna.
Íslenskur almenningur á drjúgan hluta hlutafjár í þeim félögum sem er skráður á markað, eins og fyrr segir, í gegnum eignarhluti lífeyrissjóðanna.
Samanlagðar eignir þessara fimm félaga voru í lok árs í fyrra 422,5 milljarðar króna, og eru að mestu í fasteignum og leigusamningum.