Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin setji velferð barna í forgang. Í tilkynningu frá honum, vegna máls Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu, og Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, kemur fram að ef Ásmundur Einar hafi leynt velferðarnefnd og Alþingi mikilvægum gögnum er varðar Barnaverndarstofu þá hafi það „ótvírætt áhrif á stöðu ráðherrans“. „Alþingi hefur ríkt eftirlitshlutverk með störfum ráðherra. Komi það í ljós að félags- og jafnréttismálaráðherra eða ráðuneyti hans hafi leynt velferðarnefnd og Alþingi mikilvægum gögnum er varðar málefni Barnaverndarstofu og öryggi og velferð barna, hefur það ótvírætt áhrif á stöðu ráðherrans. Fulltrúar í velferðarnefnd munu um helgina fara ítarlega yfir trúnaðargögn um málið og stefnt er að því að nefndin fundi með ráðherra strax á mánudag. Að loknum þeim fundi verða vonandi öll kurl komin til grafar og staða ráðherra og aðkoma hans að málinu upplýst,“ segir í tilkynningunni.
Í umfjöllun Stundarinnar í morgun kom fram að Bragi hafi beitt sér fyrir því að maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn. Ásmundur Einar fékk upplýsingar um þetta, en deildi þeim ekki með ríkisstjórn eða velferðarnefnd Alþingis.
Eins og kunnugt er, þá greindi Ásmundur Einar frá því að Bragi Guðbrandsson yrði í framboði fyrir hönd Íslands í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnin samþykkti það.
Í viðtali við RÚV í kvöld, þá segist Ásmundur Einar engum gögnum verið leynt.
Kosið er í hana á tveggja ára fresti, níu fulltrúar í hvert sinn. Hver fulltrúi er kosinn til fjögurra ára í senn. Næsta val fulltrúa í nefndina fer fram þann 29. júní næstkomandi en Utanríkisráðuneytið mun stýra kosningabaráttu vegna framboðs fulltrúa Íslands með milligöngu fastanefndarinnar í New York. Frestur til framboðs rennur út næstkomandi mánudag.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að mál Braga hefði ekki komið til umræðu innan ríkisstjórnarinnar þegar tilkynnt var um fulltrúa Íslands. Hún segist ætla að ræða við Ásmund Einar þegar hann komi að utan eftir helgi.