Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa áberandi minni áhyggjur af því að spilling þrífist í fjármálum og/eða stjórnmálum á Íslandi en kjósendur annarra flokka. Alls hafa 42 prósent landsmanna áhyggjur af slíkri spillingu, en einungis 22 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks hafa þær og 23 prósent kjósenda Framsóknarflokksins.
Til samanburðar hafa 60 prósent kjósenda Pírata áhyggjur af spillingu og 51 prósent kjósenda Flokks fólksins og Miðflokksins. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR.
Niðurstöðurnar ríma við niðurstöðu alþjóðlegu viðhorfskönnunarinnar, sem lögð var fyrir hérlendis á vormánuðum 2017, og sýndi að langflestir Íslendingar sjá einhverja spillingu á meðal íslenskra stjórnmálamanna og verulegur hluti telur að hún sé mjög mikil. Einungis sjö prósent þátttakenda í þeirri könnun töldu nánast enga stjórnmálamenn spillta, 21 prósent sögðu að það væru fáeinir spilltir stjórnmálamenn, 38 prósent sögðu þá nokkra, 29 prósent töldu þá marga og fimm prósent aðspurðra sögðu að allir stjórnmálamenn væru spilltir. Í alþjóðlegu viðhorfskönnuninni voru kjósendur Sjálfstæðisflokks langólíklegastir til að telja að spilling væri útbreidd á meðal stjórnmálamanna, en 18 prósent þeirra töldu svo vera. Framsóknarmenn voru næst ólíklegastir til þess, en fjórði hver slíkur taldi sig sjá útbreidda spillingu.
Kjósendur úr mismunandi heimum
Í könnun MMR var einnig kannað hvort að Íslendingar hefðu áhyggjur af ýmsu öðru. Alls sögðust 44 prósent hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu. Slíkar áhyggjur var síst að finna á meðal kjósenda Flokks fólksins (30 prósent) annars vegar og Framsóknar og Viðreisnar (32 prósent) hins vegar.
Rúmlega þriðjungur landsmanna, 34 prósent, höfðu áhyggjur af húsnæðismálum. Þær áhyggjur voru mestar hjá kjósendum Pírata (41 prósent og Vinstri grænna (40 prósent) en langminnstar hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks (26 prósent). Það ætti varla að koma neinum á óvart að húsnæðisáhyggjur voru miklu meiri hjá fólki undir þrítugu (55 prósent) en þeim sem eru komnir yfir fimmtugt (18-20 prósent).
Þegar spurt var um áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði svöruðu 31 prósent aðspurðra þeirri spurningu játandi. Kjósendur Samfylkingarinnar (48 prósent) og Flokks fólksins (43 prósent) höfðu mestar áhyggjur af þeirri breytu en kjósendur Sjálfstæðisflokksins voru afgerandi þeir sem höfðu minnstar áhyggjur af fátækt og félagslegum ójöfnuði. Einungis tíu prósent kjósenda þess flokks höfðu slíkar áhyggjur.
Einungis eitt prósent landsmanna hafði áhyggjur af aðgengi að lánsfé og tvö prósent höfðu þær vegna hryðjuverka.