Sjálfstætt starfandi ljósmæður og Sjúkratryggingar Íslands sömdu í kvöld og mun samningurinn taka gildi um leið og fulltrúi ráðherra hefur skrifað undir hann.
Frá þessu er greint á vef RÚV en þar staðfestir Bergrún Arney Þórarinsdóttir, sem sat fund í kvöld fyrir hönd ljósmæðra, að samningar hafi náðst og að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafi veitt svigrúm inn í samninginn til að hækka greiðslur til ljósmæðra án þess að skerða þjónustuna.
Fyrr í dag sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að það væri óásættanlegt að ekki hefði tekist að semja við sjálfstætt starfandi ljósmæður, þar sem þetta væri mikilvæg þjónusta sem þyrfti að sinna. „Í byrjun vikunnar hættu ljósmæður sem sinnt hafa heimaþjónustu við sængurkonur og nýbura þeirri þjónustu í kjölfar þess að samningur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands er runninn út og ekki hefur samist að nýju. Ég get ekki lagt nægilega þunga áherslu á að samningar náist hið allra fyrsta. Þjónusta ljósmæðra við fjölskyldur í heimahúsum er afar mikilvægur þáttur í viðkvæmri þjónustukeðju sem nú hefur verið rofin. Við höfum við þessar aðstæður hafið samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins um breytta en skerta þjónustu við þennan hóp. Það er ekki ásættanlegt, hvorki til lengri né skemmri tíma. Semjið!,“ sagði Páll í pistli sínum.
Nú hafa samningar náðst, og ljóst að þessi þjónusta mun halda sér óskert, þegar samningar hafa tekið gildi og verið samþykktir.