„Mér þótti miklu vænna um Reykjavík en Sjálfstæðisflokkinn, en mér fannst eins og mörgum þar þætti miklu vænna um Sjálfstæðisflokkinn en Reykjavík. Þetta gildir líka í landsmálunum. Það eru stjórnmálamenn á Alþingi sem þykir miklu vænna um flokkinn sinn en þjóðarhag. Mér finnst í vaxandi mæli að við þurfum að finna stjórnmálafólkið sem þykir vænna um þjóðarhag en flokkana sína.“
Þetta segir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið í dag. Þar fjallar hann um feril sinn í stjórnmálum, viðhorf hans til borgar- og skipulagsmála, og hvernig sýn hans hefur breyst og þroskast með meiri reynslu.
Hann segist hugsa um borgarmál alla daga, og hann útilokar alls ekki að snúa aftur í stjórnmálin. Á þessu stigi sé hann mjög ánægður í starfi sínu á RÚV.
Í viðtalinu segist hann ennfremur vera á því, að uppbygging og þróun Reykjavíkurborgar í átt að uppbyggingu í Vatnsmýrinni sé risavaxið mál, og miklu stærra mál en t.d. aðild Íslands að ESB. „Varðandi borgarskipulag þá var ég kominn með margar grunnhugmyndir mínar, eins og að það ætti að byggja í Vatnsmýri sem er langstærsta hagsmunamálið fyrir Reykjavík, til dæmis margfalt stærra en það hvort við erum inni í ESB eða ekki,“ segir Gísli Marteinn.