Dómsmálaráðuneytið auglýsir eftir upplýsingafulltrúa í Fréttablaðinu í dag. Hæfniskröfurnar hafa breyst frá því fyrri auglýsingin birtist en þetta er í annað sinn á tveimur mánuðum sem ráðuneytið auglýsir starfið.
Umsækjendur verða nú að hafa hæfni til að koma fram fyrir hönd ráðuneytisins og hæfni í að miðla upplýsingum. Ekki er gerð krafa um reynslu af blaða- eða fréttamennsku eins og gert var í fyrri auglýsingu en þess í stað er krafist reynslu sem nýtist í starfi. Jafnframt þurfa umsækjendur að hafa færni í textagerð og framsetningu kynningarefnis.
Umsóknarfrestur er til og með 15. maí næstkomandi.
Auglýsing
23 sóttu um starfið í síðasta mánuði en aðeins hluti umsóknanna uppfyllti þau hæfnisskilyrði sem tilgreind voru í auglýsingunni, að mati ráðuneytisins. Enginn var boðaður í viðtal vegna starfsins.
Jóhannes Tómasson sem gegnt hefur stöðu upplýsingafulltrúa sameinaðs ráðuneytis dómsmála og samgöngu- og sveitarstjórnarmála síðustu 12 ár hefur þegar látið af störfum.