Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis, sé rúin trausti og eigi að segja af sér.
Þetta kemur fram í Facebook færslu Ásmundar, þar sem hann fjallar um mál sem snýr að Ásmundi Einari Daðasyni, félagsmálaráðherra og Braga Guðbrandssyni, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu.
Ásmundur segir í færslunni að hann hafi sent tölvupóst á nefndina, sem hann á sæti í og er 2. varaformaður hennar, og sagt að hann gæti ekki setið fund nefndarinnar, sem var í dag, vegna persónulegra erinda erlendis. „Ég notaði póst sem formaðurinn sendi nefndinni og svaraði til baka. Það er skemmst frá því að segja að það leið örskammur tími frá því að ég sendi svarið á nefndina að tölvupósturinn frá mér til nefndarmanna birtist óbreyttur á vef Stundarinnar,“ segir Ásmundur og gagnrýnir Halldór harðlega fyrir hennar framgöngu.
„Ég gerði mér reyndar ekki grein fyrir því að formaður velferðarnefndar, Halldóra Mogensen hafði bætt þingflokki Pírata inn í tölvupóstsendingar sem eingöngu áttu að berast nefndinni. Það er auðvitað grafalvarlegt mál að formaðurinn sé að blanda þingflokki Pírata inn í tölvupóstsendingar nefndarinnar sem míglekur upplýsingum úr þinginu til Stundarinnar eins og nú hefur sannast. Þarna kom i ljós sem margir hafa talið rökstuddan grun um að Píratar séu í beinu sambandi við Stundina og ganga erinda miðilsins á Alþingi og fyrir vini og vandamenn. Í þeirri orrahríð sem gengur yfir félagsmálaráðherra og Braga Guðbrandsson má vart á milli sjá hvor er fljótari með fréttirnar, þingmenn Pírata eða Stundin og samstarfið minnir á þá félaga Baldur og Konna sem töluðu einum rómi búktalarans. Nú er verið að óska eftir sérstökum fundi í velferðarnefnd, bundnum trúnaði um málefni sem ræða á við Braga Guðbrandsson. Barnaverndarmál njóta mestan trúnaðar og það er því óðs manns æði að ætla sér að ræða trúnaðarmál í velferðarnefnd á meðan ekki er hægt að halda trúnað á tölvupósti milli nefndarmanna án þess að hann birtist í Stundinni. Formaður nefndarinnar er rúin trausti og ætti að segja af sér,“ segir Ásmundur.