Langtímahitafarsbreytingar á Íslandi frá lokum síðasta jökulskeiðs, eða í rúm 10 þúsund ár, hafa verið um 4°C sem er mun meira en hnattrænar breytingar á sama tíma. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kynnt var í dag.
Í skýrslunni er talið líklegt að fram að miðbiki aldarinnar hlýni á landinu og hafsvæðinu umhverfis það og að árin 2046 til 2055 verði að meðaltali 1,3 til 2,3°C hlýrri en árin 1986 til 2005. Umfang hlýnunar ráðist aðallega af losun gróðurhúsalofttegunda.
Verði losun mikil gæti hlýnun til loka aldarinnar (meðaltal áranna 2091 til 2100) numið meira en 4°C, með ríflegum óvissumörkum þó. Gangi Parísarsamkomulagið eftir, þar sem minna er losað af gróðurhúsalofttegundum, gæti hlýnunin til loka aldarinnar verið á bilinu 1,5 til 2,4°C.
Líklegt er að hlýnunin verði meiri að vetri til en að sumri og nemur munurinn um helmingi af hlýnun á ársgrundvelli. Vísbendingar eru um að hlýnunin verði meiri norðanlands en sunnan og víða um landið verði meira en helmingur sumardaga við lok aldarinnar hlýrri en 15°C.
Meiri óvissa er um úrkomubreytingar en breytingar á hita en gera má ráð fyrir að úrkoma aukist um að minnsta kosti 1,5 prósent fyrir hverja gráðu sem hlýnar. Í sumum reiknilíkönum er aukningin allt að 4,5 prósent fyrir hverja gráðu. Vísbendingar eru um að úrkomuákefð geti einnig aukist og að þrátt fyrir aukna heildarúrkomu geti þurrkadögum einnig fjölgað.
Hnattrænar breytingar
Hnattræn hlýnun við lok aldarinnar verður líklega á bilinu 0,3 til 4,8°C og fer mjög eftir því hversu mikið verður losað af gróðurhúsalofttegundum. Meginlönd munu hins vegar hlýna meira en úthöfin og hlýnunin verður áköfust á heimskautasvæðum norðursins. Nánast öruggt er að á flestum svæðum mun heitum dögum fjölga og köldum dögum fækka að sama skapi. Líklegt er að hitabylgjur verði lengri og tíðari, en eftir sem áður má stöku sinnum búast við köldum vetrum á hærri breiddargráðum. Draga mun úr úrkomu á þurrum svæðum á sama tíma og hún eykst á svæðum sem þegar eru úrkomusöm.
Í skýrslunni segir að hlýnun jarðar sé óumdeilanleg og bendi margar athuganir til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar sem séu fordæmalausar hvort sem litið er til áratuga eða árþúsunda. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafi hlýnað, dregið hafi úr magni og útbreiðslu snævar og íss, auk þess sem sjávarborð hefur hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist.
„Ennfremur hefur sýrustig sjávar lækkað um 0,1 pH stig frá iðnbyltingu og ummerki þess á lífríki eru þegar merkjanleg. Athafnir manna, sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis, hafa aukið styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum og er hann nú mun meiri en vitað er að hann hafi verið að minnsta kosti síðustu 800 þúsund ár. Styrkur CO2 í lofthjúpnum hefur aukist um 40 prósent frá því fyrir iðnbyltingu. Heimshöfin hafa tekið við um 30 prósent af koldíoxíðslosuninni og veldur það súrnun þeirra. Nýlegar rannsóknir benda til þess að frá miðbiki 8. áratugs síðustu aldar hafi hlýnun numið um 0,17– 0,19°C á áratug og sveiflur yfir styttri tímabil víki ekki marktækt frá því. Hlýnun síðustu áratuga er tölfræðilega marktæk.“
Ábendingar um aðgerðir og skort á þekkingu
Í síðustu skýrslu Vísindanefndar árið 2008 var bent á að umtalsverðar afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi verði ekki umflúnar. Þetta yki þörf á vöktun og rannsóknum á ýmsum þáttum náttúrufars. Ljúka þyrfti öflun grunnupplýsinga um náttúrufar landsins og efla langtímavöktun á umhverfisþáttum og lífríki hafs og lands. Þá var bent á að vöktun er langtímaverkefni sem krefst stöðugra fjárveitinga og hentar ekki til fjármögnunar úr samkeppnissjóðum.
Síðan sú skýrsla kom út hefur dregið úr almennri vöktun á náttúrufari landsins, og gildir það jafnt um veðurathuganir sem og vöktun á lífríki lands og sjávar. Vísindanefnd telur í skýrslu sinni mikilvægt benda á að skipuleg viðbrögð við loftslagsbreytingum þurfi að byggja á haldbærum rannsóknum og þekkingaröflun. Margvíslegar rannsóknir hafa þegar verið gerðar sem gefa vísbendingar um áhrif loftslagsbreytinga á ýmsa náttúruþætti.
Engin áætlun er þó til um vöktun á lykilþáttum íslenskrar náttúru. Sérstaklega vanti rannsóknir þar sem tengsl við loftslagsbreytingar eru við fangsefni, en ekki er reynt að skýra út orsakasamhengi breytinga á umhverfisþáttum og náttúrufari eftir á. Bæta þurfi vöktun sérstaklega á þeim þáttum sem líklegastir eru taldir til að breytast.