Samkomulag hefur náðst um kaup Iceland Seafood á Solo Seafood ehf. sem er eigandi Icelandic Iberica á Spáni. Greitt er fyrir Solo með hlutum í sameinuðu félagi, og því er um eiginlega sameiningu félaganna að ræða.
Kaupverðið jafngildir um 7 milljörðum króna.
Solo Seafood var í eigu Sjávarsýnar, félags Bjarna Ármannssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Glitnis, FISK Seafood dótturfélagi Kaupfélags Skagfirðinga, Jakobs Valgeirs og Nesfisks, að því er segir í tilkynningu frá Iceland Seafood til Kauphallarinnar.
Icelandic Iberica er með um 120 milljónir evra í tekjur ári, eða sem nemur um 14,4 milljarðar króna. Hagnaðurinn hefur verið um 4 milljónir evra á ári, eða um 500 milljónir króna.
Með kaupunum er horft til þess að styrkja stoðirnar og ná fram hagkvæmari rekstri, að því er segir í tilkynningu vegna viðskiptanna. Sameinað félag verður með um 3 þúsund viðskiptavini í 45 löndum, og starfrækir níu vinnslustöðvar.
Sameinað félag mun velta meira en 400 milljónum evra, eða um 50 milljörðum íslenskra króna, og gera áætlanir ráð fyrir að hagnaðurinn á ári geti numið um 10 milljónum evra, eða um 1,2 milljörðum króna.