„Það verður að segjast eins og er að þessi yfirlýsing ráðherra er með ólíkindum.“
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félagsmálaráðherra, á Facebook síðu sinni.
Það vitnar hann til yfirlýsingar Ásmundar Einars Daðasonar, núverandi félagsmálaraðherra, þess efnis að rannsókn ráðuneytisins, á málum er tengjast kvörtunum Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndar Hafnarfjarðar, á afskiptum Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu, sé ekki hafin yfir gagnrýni.
„Ráðuneytið fer með eftirlitsskyldu gagnvart Barnaverndarstofu og er því hinn rétti aðili til að sinna þessari rannsókn. Rannsóknin var sett af stað í ráðherratíð minni eftir að formlegar kvartanir höfðu borist frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar. Vandinn er hins vegar sá að niðurstaða þeirrar rannsóknar sem fór fram hefur aldrei verið birt. Það var væntanlega ákvörðun ráðherra að gera það ekki. Án birtingar á niðurstöðu er engin leið að taka afstöðu til rannsóknarinnar. Það er ótrúlegt að ráðherra kasti með þessum hætti rýrð á vinnu eigin ráðuneytis án þess að sú niðurstaða hafi verið birt,“ segir Þorsteinn.
Enn fremur segir hann, að það sé svo sjálfstætt mál hvað ráðherra geri með þá niðurstöðu, með annars að styðja við framboð Braga á alþjóðavettvangi, en eins og kunnugt er þá er Bragi í framboði fyrir Íslands hönd til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Í henni eiga sæti 18 fulltrúar sem hafa það hlutverk að hafa eftirlitið með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Það er engin leið að leggja mat á þá ákvörðun án þess að hafa niðurstöðu ráðuneytisins í málinu við hendina. Það er hins vegar enn og aftur nokkuð sem heyrir undir ábyrgð ráðherra en ekki ráðuneytisins. Það er ekki sérlega stórmannlegt af ráðherra að varpa ábyrgð á eigin gjörðum yfir á embættismenn ráðuneytisins með þessum hætti,“ segir Þorsteinn.