„Síðan við tókum yfir höfum við því þurft að ganga í það að aðlaga þessa leigusamninga að markaðsverði og höfum við verið að gera það í skrefum til að leigjendur fái svigrúm til aðlögunar,“ segir í svari Almenna leigufélagsins við fyrirspurn Kjarnans.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gagnrýnir þessar hækkanir í facebook-færslu í dag. Þar segir hann að um sé að ræða 50 til 70 prósent hækkanir á rúmum tveimur árum. „Mörg tilfelli eru af einstaklingum og tekjulágum fjölskyldum sem eru að missa það litla sem eftir er af ráðstöfunartekjum til að brauðfæða sig og sína og eru margir skiljanlega í áfalli og standa ráðþrota gagnvart þessu. Valkosturinn er að taka þessu eða enda á götunni,“ segir hann í færslunni.
Almenna leigufélagið tók við rekstri tveggja stórra eignasafna árið 2017 sem samsett voru af eignum sem voru að stærstum hluta í eigu Íbúðarlánasjóðs. Annars vegar leigufélagið Klett, sem var í eigu ÍLS, og hins vegar félagið BK eignir sem var samansett af nokkrum eignasöfnum frá ÍLS, segir í svari Almenna leigufélagsins.
Í svarinu segir jafnframt að í mörgum tilfellum sé leiguverð búið að standa óbreytt frá árunum 2009 til 2010 og hafi það því verið mjög langt undir markaðsverði. Félagið hafi verið að greiða háar fjárhæðir með þessum eignum vegna rekstrar- og fjármagnskostnaðar.
Leiguverð verði að taka mið af fasteignaverði
Segir enn fremur í svarinu að þau hafi skilning á að það geti verið þungt fyrir leigjendur þegar leiguverð hækkar, en leiguverð taki auðvitað fyrst og fremst mið af fasteignaverði, sem hafi hækkað mjög undanfarin ár.
„Leiguverð þarf svo auðvitað að standa straum af fasteignagjöldum og önnur opinberum gjöldum, sem hafa hækkað gríðarlega undanfarin ár með hækkandi fasteignamati. Viðhald fasteigna vegur mjög þungt í kostnaði og svo erum við auðvitað að reka skrifstofu með öllu því sem fylgir, erum með fjölda manns í vinnu við að sinna fasteignunum og leigjendum okkar og bjóðum upp á 24/7 símsvörun og neyðarþjónustu fyrir viðskiptavini okkar. Langstærsti liðurinn í rekstri allra fasteignafélaga er svo fjármagnskostnaður sem er gríðarlega hár hér á landi vegna vaxtastigsins.
Einkarekin leigufélög eru alls staðar í hinum vestræna heimi hluti af heilbrigðum og fjölbreyttum húsnæðismarkaði þar sem fólk hefur val í búsetumálum. Til þess að við getum tekið þátt í því þarf rekstur þessara félaga að standa undir sér.
Í dag skiptist leigumarkaðurinn þannig að tveir þriðju hlutar allra leiguíbúða eru í eigu einstaklinga.
Við fáum mjög oft til okkar fólk sem hefur verið að leigja af slíkum aðilum og hafa lent í vandræðum varðandi viðhald, hefur lent í því að fá ekki tryggingarfé sitt greitt til baka að leigutíma loknum, hefur þurft að flytja oft vegna þess að leiguíbúðir þeirra eru seldar,“ segir í svari Almenna leigufélagsins.
Kannast ekki við málningarvinnugjald
Ragnar gagnrýndi enn fremur að fólk sem hefur fengið aðra íbúð innan félagsins sé rukkað um rúmlega 120.000 krónur í flutningsgjald og í flestum tilfellum sé krafist hærri trygginga í nýjum samningum.
Í svari Almenna leigufélagsins segir að flutningsgjald sé kostnaður við flutning milli íbúða innan félagsins. Það séu mjög margir leigjendur hjá þeim sem nýta sér þessa þjónustu en það fylgi henni mikill kostnaður fyrir félagið. „Önnur íbúðin stendur alltaf ótekjuberandi í ákveðinn tíma meðan flutningur á sér stað, auk þess sem standsetningar- og umsýslukostnaður er tölvuverður. Þetta er gjald sem er alþekkt hjá leigufélögum erlendis og hérlendis. Til dæmis rukkaði Leigufélagið Klettur, sem var í eigu Íbúðarlánasjóðs, einn auka mánuð fyrir þessa þjónustu, en við kusum að fara þessa leið að hafa þetta fast gjald, kr. 120.000,- til að halda kostnaði í lágmarki.“
Í þriðja lagi nefnir Ragnar að reynt sé að lauma inn í samninga að leigjandi greiði 95.000 krónur fyrir málningarvinnu eða skili af sér nýmáluðu ef leigusamningi er sagt upp. Almenna leigufélagið kannast ekki við slíkt málningarvinnugjald. „Leigjandi greiðir fyrir málningu ef hann hefur neglt eða borað í veggi, en þó ekki ef 5 ár eru liðin frá upphafi leigutíma þar sem þá er kominn eðlilegur tími á heilmálningu íbúðar. Þetta á að sjálfsögðu einungis við ef íbúinn hefur fengið íbúðina afhenta nýmálaða,“ segir í svarinu.