Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 nam 1,9 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár var aðeins 3,6% samanborið við 6,3% fyrir sama tímabil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóðlegum samanburði.
Þá var kostnaðarhlutfall bankans hátt, eða 70,8 prósent, en til samanburður hefur Landsbankinn, stærsti banki landsins, sett sér það markmið að ná kostnaðarhlutfalli niður í 45 prósent.
Heildareignir námu 1.131,8 milljörðum króna í lok mars 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 204,1 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017.
Eiginfjárhlutfall bankans var 23,6% í lok mars en var 24,0% í árslok 2017.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningu að afkoman sé aðeins undir undir væntingum. „Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2018 er aðeins undir væntingum. Þóknanatekjur og fjármunatekjur þróast með jákvæðum hætti en vaxtamunur hefur lækkað, m.a. vegna sterkrar lausafjárstöðu bankans og mikillar samkeppni á lánamarkaði sem hefur þrýst á vaxtakjör,“ segir Höskuldur.
Þá segir hann að samdráttur hafi verið í tryggingatekjum frá dótturfélagi bankans, Verði. Hann skýrist meðal annars af ökutækjatjónum í vetur. „Tekjur dótturfélagsins Valitor halda áfram að vaxa með áframhaldandi sókn á erlenda markaði en þeirri sókn fylgir jafnframt umtalsverður kostnaður og eru áhrif Valitor á afkomuna neikvæð. Áfram verður lögð áhersla á vöxt Valitor erlendis. Það eru spennandi tækifæri á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á og frekari vöxtur getur haft veruleg áhrif á hugsanlegt markaðsvirði félagsins á komandi misserum,“ segir Höskuldur.
Til stendur að skrá bankann á markað, en stærsti eigandi bankans, með 55,6 prósent hlut, er Kaupþing. Það félag mun að líkindum selja í kringum 30 prósent hlut í útboðinu, samkvæmt umfjöllun Markaðarins í morgun. Virði hluta Kaupþings miðað við bókfært eigið fé, er um 125 milljarðar króna.
Höskuldur segir, að Arion banki hafi mikil sóknarfæri í uppbyggingu stafrænnar þjónustu og að hann hafi til þessa verið í leiðandi hlutverki á því sviði. „Arion banki hefur markað sér nokkra sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði með því að kynna til leiks fjölbreyttar og spennandi stafrænar nýjungar á sviði fjármálaþjónustu. Markmið okkar er að gera þjónustu okkar eins einfalda og þægilega fyrir okkar viðskiptavini og við frekast getum. Við kynntum á fyrsta ársfjórðungi m.a. ný stafræn lánaferli fyrir skammtímalán og bílalán. Einnig þægilegar leiðir til að dreifa greiðslum á kreditkort og stofna sparnaðarreikninga. Við sjáum að með þægilegri bankaþjónustu eykst ánægja okkar viðskiptavina á sama tíma og við uppskerum aukna skilvirkni í okkar starfsemi. Nú er það svo að 96% snertinga okkar við viðskiptavini fara fram í gegnum stafrænar leiðir. Það sýnir vel hve mikið fjármálaþjónusta er að breytast og höfum við því boðað breytingar á útibúaneti okkar sem endurspegla það. Markmiðið með breytingunum er annars vegar að efla okkar kjarnaútibú þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta sótt alla hefðbundna fjármálaþjónustu og hins vegar að þróa minni útibúin í takt við útibúið okkar í Kringlunni þar sem höfuðáhersla er á stafrænar lausnir,“ segir Höskuldur.