Verða íslensku lífeyrissjóðirnir of stórir fyrir Íslands í nánustu framtíð? Þetta er umfjöllunarefni morgunverðarfundar sem Landssamtök lífeyrissjóða og Kjarninn standa sameiginlega að næstkomandi miðvikudag, 9. maí. Fundurinn fer fram á Grand hótel og stendur yfir milli 8:30 og 10. Fundinum verður auk þess streymt beint á vef Kjarnans.
Framsögumenn á fundinum verða Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, Jón Þór Sturluson, starfandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Þorbjörn Guðmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða.
Íslenska lífeyrissjóðakerfið er stórt miðað við hagkerfi landsins. Eignir í lífeyrissjóðakerfinu eru um ein og hálf landsframleiðsla og eiga sjóðirnir um þriðjung af heildarfjármunum á Íslandi. Hrein eign þeirra nam 3.966 milljörðum króna í lok febrúar síðastliðins. Hún hefur aukist um 433 milljarða króna frá lokum árs 2016.
Fyrir liggur að sjóðirnir munu stækka umtalsvert á næstu árum og hlutfall þeirra af heildarfjármunum landsmanna mun samkvæmt spám aukast.
Hægt er að skrá sig á fundinn hér.