Úrgangsefni Íslendinga nam yfir milljón tonnum árið 2016 og stórjókst frá fyrra ári. Á sama tíma dróst losun gróðurhúsalofttegunda saman lítillega milli ára, en er enn of há miðað við Kýótóbókunina. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Umhverfisstofnunar, sem var birt í morgun.
Samkvæmt skýrslunni dróst heildarlosun gróðurhúsalofttegunda saman um 2% milli 2015 og 2016, en hún hefur verið nokkuð stöðug frá 2011. Tveir þriðju hlutar af losuninni koma frá orkugeiranum, þá aðallega af vegasamgöngum og fiskiskipum. Þrátt fyrir stöðuga losun undanfarinna ára er hún 5% yfir losuninni árið 1990, en Íslendingar skuldbundu sig að komast undir það stig með Kýotóbókuninni.
Hugsanleg vanræksla á þeim skuldbindingum gæti reynst ríkissjóði dýr, í skýrslunni segir: „Ef ekki dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi mun losun Íslands á tímabilinu verða langt umfram úthlutaðar heimildir og mun Ísland þurfa að uppfylla skuldbindingar sínar með því að kaupa heimildir.“
Úrgangur sem féll til árið 2016 vóg rúmlega 1.070 tonn, sem er 23% aukning frá síðasta ári. Samkvæmt skýrslunni má rekja þessa miklu aukningu milli ára til aukins jarðvegs-, jarðefna- og óvirks úrgangs, sem gert er ráð fyrir að sé fylgifiskur aukinna byggingaframkvæmda.
Í leiðara skýrslunnar segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhvefisstofnunnar, „þetta reddast“ hugsunarhátt Íslendinga vinna gegn baráttunni í umhverfismálum og að vinna þurfi að langtímamarkmiðum: „Það krefst langtímaáætlunargerðar að berjast gegn skaðlegum loftslagsbreytingum, þar duga engar reddingar.“ Sem dæmi um langtímaaðgerðir bendir Kristín á fjöruhreinsun og hrósar svokölluðum „plokkurum“ fyrir frumkvæðiskraft.