Halldóra Mogensen þingmaður Pírata spurði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra út í fjárhagsvandræði heimaþjónustunnar Karitas sem sinnir sjúklingum í heimahúsum vegna alvarlegra sjúkdóma í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Halldóra sagði visst munstur að koma fram sem gæti verið vísbending um stefnubreytingu í heilbrigðismálum á Íslandi. „Við sjáum þetta með rekstur sjúkrabíla, GET og Hugarafl og nú Karitas,“ sagði Halldóra og spurði Svandísi hvort það væri hennar stefna að ríkisvæða heilbrigðisþjónustu í auknum mæli. „Ef svo er, telur ráðherra vænlegt að gera breytingar á því hvernig heilbrigðisþjónustu er háttað án þess að formleg stefna sé komin fram og umræða hafi átt sér stað um hana?“
Svandís sagði það heyra undir hennar ráðuneyti og embætti að tryggja að ef samningur Karitas renni út sé tryggt að Landspítalinn og heilsugæslan taki við keflinu og ekkert rof verði á þeirri þjónustu. „Það er auðvitað meginmarkmiðið.“
Svandís sagði ennfremur að í skýrslu frá Ríkisendurskoðun komi fram gagnrýni á að kaupum á heilbrigðisþjónustu sé ekki eins vel háttað eða með nægilega markvissum hætti.
„Ef háttvirtur þingmaður sér stefnubreytingu myndi ég kannski vilja orða það sem svo að stefnubreytingin væri að mínu viti fólgin í því fyrst og fremst að freista þess að hafa heildarmyndina undir í öllum mínum ákvörðunum. Það er það sem ég er að reyna að gera. Og tryggja fyrst og fremst þjónustuna og samfellu í henni og öryggi sjúklinga.