Bandarískir fjárfestingasjóðir í stýringu American Funds, sem er dótturfélag eignastýringarfyrirtækisins Capital Group, keyptu nýlega hlut í Marel fyrir 1,5 milljarða króna.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Núverandi eignarhlutur bandarísku
sjóðanna skilar þeim ekki á
opinberan lista yfir tuttugu stærstu
hluthafa Marels. Eini erlendi fjárfestirinn
í þeim hópi er bandaríska
fyrirtækið MSD Partners, sjöundi
stærsti hluthafi félagsins með 3,34
prósenta eignarhlut, sem kom inn í
hluthafahóp Marels í febrúar í fyrra
þegar það keypti hlut af Eyri Invest.
Hlutabréfaverð Marels hefur hækkað
um liðlega tuttugu prósent á þessu
ári og miðað við núverandi gengi
bréfa félagsins, sem er 383 krónur á
hlut, nemur markaðsvirði þess um
261,9 milljörðum króna.
Stærsti eigandi fyrirtækisins er Eyrir Invest, með tæplega 26 prósent hlut, en feðgarnir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, og Þórður Magnússon, eru stærstu eigendur þess félags.