Hugmyndir um hvernig styrkja eigi rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla verða lagðar fyrir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í byrjun júní. Á meðal þeirra tillagna sem eru til umfjöllunar eru tillögur varðandi greiðslur vegna talsetningar og textunar og tillögur til að fjármagna starfsemi ritstjórna sem vinna fréttatengt efni. Þetta kom fram í máli Elfu Ýrar Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, á opnum fundi sem Vinstri græn í Reykjavík héldu í gær undir yfirskriftinni „Aðför að lýðræði, falsfréttir og kosningar“.
Þann 26. apríl síðastliðinn var tilkynnt um að Gylfi Ólafsson, fyrrverandi aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, hefði verið ráðinn í tímabundið starf verkefnastjóra hjá fjölmiðlanefnd. Samkvæmt frétt á vef nefndarinnar er Gylfa ætlað að „afla gagna og leggja mat á tillögur nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem birtar voru í janúar sl. Byggt verður á afrakstri þeirrar vinnu við undirbúning að ákvörðunartöku stjórnvalda um hvernig hægt er að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Meðal annars verður byggt á mikilvægum upplýsingum í skýrslum fjölmiðla sem þeir afhenda fjölmiðlanefnd árlega, samkvæmt lögum um fjölmiðla. Gert er ráð fyrir að fyrstu hugmyndir liggi fyrir í byrjun sumars en það veltur á því hversu vel mun ganga að afla nauðsynlegra upplýsinga frá fjölmiðlunum sjálfum.“
Í dag, föstudaginn 11. maí, rennur út frestur skráðra fjölmiðla á Íslandi til að skila inn árlegri skýrslu til fjölmiðlanefndar. Í þetta sinn er óskað eftir viðbótarupplýsingum um hver kostnaður fjölmiðla sé við framleiðslu frétta og fréttatengds efnis. Tilgangur þess að afla þeirra gagna er sá að áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um stöðu fjölmiðla þegar stjórnvöld taka ákvörðun um hvort og þá hvernig ráðist yrði í endurgreiðslur vegna framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni.
Nefndin skilaði sjö tillögum
Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem Illugi Gunnarsson skipaði í lok árs 2016, skilaði skýrslu með tillögum um umbætur í lok janúar síðastliðnum. Nefndin gerði tillögur um aðgerðir í sjö liðum sem gætu bætt rekstrarskilyrði fjölmiðla.
Þær snéri meðal annars að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá var einnig ítarleg samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum auk sérálits tveggja nefndarmanna.
Í nefndinni sátu Björgvin Guðmundsson, formaður, meðeigandi KOM ráðgjafar, Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Hlynur Ingason, starfsmaður í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Soffía Haraldsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri mbl.is, og Svanbjörn Thoroddsen, meðeigandi KPMG.