Notkun gervigreindar við vinnu er til umfjöllunar í útgáfu Vísbendingar, þar sem Lilja Dögg Jónsdóttir, hagfræðingur og MBA frá Harvard háskóla, heldur áfram að skrifa um breytingar á störfum vegna innleiðingar á tækni og gervigreind.
Í greininni er meðal annars fjallað ítarlega um alþjóðlega könnun sem unnin var við MIT háskólann, sem gefur til kynna að miklar og hraðar breytingar séu að eiga sér stað á hagkerfum, vegna innleiðingar gervigreindar.
„Ráðgjafarfyrirtækið BCG vann ásamt MIT háskóla umfangsmikla könnun meðal stjórnenda fyrirtækja sem gaf meðal annars til kynna að 85% stjórnenda, þvert á geira, telja gervigreind vera lykilinn að því að ná eða viðhalda samkeppnisforskoti síns fyrirtækis. 60% stjórnenda sögðu stefnumótun um notkun gervigreindar áríðandi verkefni, það er að segja verkefni sem ætti að hafa forgang. Enn sem komið er hefur aðeins um eitt af hverjum tuttugu fyrirtækjum innleitt gervigreind að einhverju marki en athygli vekur að það eru fyrirtæki í öllum geirum.
Þetta er skýr vísbending um það sem við ættum að vita nú þegar. Gervigreind er tækni sem mun hafa áhrif á allt í kringum okkur, bæði í daglegu lífi og í starfi. Þótt breytinga gæti enn sem komið er aðeins sums staðar þá eru þær á stefnuskránni nær alls staðar. Það er raunar svo að það er varla rétt lengur að tala um breytingar. Þetta er bylting,“ segir meðal annars í greininni, sem fer til áskrifenda í útgáfu dagsins á morgun.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.