Fjöldi ferðamanna hér á landi skiptir ekki öllu máli, heldur frekar hvernig upplifun ferðamanna er, hvernig þeir ferðist um landið og hvernig gangi að veita þjónustu heilt yfir.
Þetta kom fram í viðtali RÚV við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, í kvöld.
Í apríl síðastliðnum fækkaði ferðamönnum um fjögur prósent, miðað við sama mánuði í fyrra, og er það í fyrsta skipti síðan árið 2010 sem verður fækkun milli ára í ferðaþjónustu, sé mið tekið af fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll. Fækkunin nemur um sex þúsund farþegum, en í máli Þórdísar Kolbrúnar kom fram að erfitt væri að ráða mikið í stöðuna þennan eina mánuð.
Frekar þyrfti að koma í ljós hvernig næstu mánuðir myndu þróast.
Flestar spár hafa gert ráð fyrir áframhaldandi vexti í ferðaþjónustu, en í fyrra var fjöldi ferðamanna um 2,3 milljónir manna. Búist var við því að fjöldinn gæti farið í 2,5 til 3 milljónir á þessu ári.
Undanfarin ár hefur vöxturinn í ferðaþjónstu verið ævintýri líkastur. Árið 2010 komu um 450 þúsund ferðamenn til landsins og hefur fjöldinn því margfaldast á skömmum tíma. Ferðaþjónusta er orðin langsamlega fyrirferðamesti útflutningsatvinnuvegur landsins, með um 570 milljarða milljarða gjaldeyristekjur á ári.