Átta af hverjum tíu landsmönnum telja efnahagsstöðuna á Íslandi vera annað hvort nokkuð góða eða mjög góða. 20 prósent landsmanna telja að hún sé slæm. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem birt var í dag.
Um er að ræða mikla breytingu frá því að könnunin var síðast framkvæmd í apríl í fyrra. Þá sögðust 65 prósent landsmanna telja stöðuna nokkuð eða mjög góða en 35 prósent að hún væri frekar eða mjög slæm.
Mikill munur er afstöðu tekjuhópa til efnahagsástandsins. Á meðal þeirra sem eru með 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði telja 40 prósent að efnahagsástandið sé slæmt en tíu prósent þeirra sem eru með milljón krónur eða meira telja að svo sé.
Þá er líka mikill munur eftir stjórnmálaskoðunum. Þannig telja 50 prósent kjósenda Flokks fólksins, 44 prósent kjósenda Pírata og 20 prósent kjósenda Samfylkingar að efnahagsstaðan á Íslandi sé slæm á meðan að nær allt stuðningsfólk Viðreisnar (97 prósent), Sjálfstæðisflokks (97 prósent) og Framsóknarflokks (96 prósent) telja hana góða.
Fleiri íbúar landsbyggðarinnar (21 prósent) telja efnahagsstöðuna slæma en íbúar á höfuðborgarsvæðinu (13 prósent) og svartsýnin er mest hjá þeim sem eru ekki útivinnandi, en þar segja 37 prósent að staðan sé slæm. Yngri landsmenn eru frekar á því að staðan sé slæm heldur en þeir sem eldri eru og konur eru svartsýnni en karlar.