Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum og innan Atlantshafsbandalagsins voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í Washington DC í dag.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir Guðlaugur Þór að, meðal annars hefði verið rætt um mikilvægi samstöðu vestrænnan ríkja. „Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum á sér langa sögu og hefur þróast í áranna rás. Undanfarin ár hefur samstarf ríkjanna farið mjög vaxandi samhliða breyttu öryggisumhverfi í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi. Atlantshafstengslin eru mikilvægari nú sem aldrei fyrr og gagnkvæmar skuldbindingar Íslands og Bandaríkjanna standa óhaggaðar. Við fórum yfir mikilvægi samstöðu vestrænna ríkja sem deila sömu gildum í því breytilega öryggisumhverfi sem við búum við,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningu.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslumál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins í sumar, þ.m.t. auknar áherslur á mikilvægi Norður-Atlantshafsins, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Einnig var loftrýmisgæsla og kafbátarleit og varnaræfingin Trident Juncture 2018 til umfjöllunar. Þá voru helstu viðfangsefni á alþjóðavettnvangi til umræðu, þ.m.t. málefni Miðausturlanda og staða mála á Gaza. Einnig voru málefni norðurslóða á meðal fundarefna.
Deeply concerned about #Gaza & regret loss of lives. Violence and use of force must stop. Worried that #JerusalemEmbassy can negatively affect peace process where a two state solution is needed.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) May 15, 2018
Á Twitter síðu sinni segist Guðlaugur áhyggjufullur yfir stöðunni fyrir botni Miðjarðarhafs, en um 60 Palestínumenn hafa látið lífið vegna skotárása Ísraelshers. Opnun nýs sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem hefur verið mótmælt kröftuglega á Gaza svæðinu, og hafa brotist út átök vegna þess og Ísraelsher hefur óhikað skotið á mótmælendur og beitt táragasi.
Guðlaugur Þór segist óttast að færslan á sendiráðinu muni grafa undan friðarviðræðnum, á grundvelli tveggja ríkja samkomulags.