Verð á Norðusjávarolíu hefur hækkað úr 46 Bandaríkjadölum í fyrra, í um 73 Bandaríkjadali nú. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að flugfargjöld víða um heim hafa farið hækkandi.
Flugfélög geta fundið verulega fyrir þessum hækkunum, þar sem erfiðara getur verið fyrir þau að selja fólki flug á hagstæðum verðum.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag nú þegar sé olíuverð á Íslandi til neytenda búið að hækka um þrjú prósent á skömmum tíma.
„Hækkandi heimsmarkaðsverð á
eldsneyti er þegar
farið að hafa
áhrif á eldsneytisverð
hér á landi.
Verð á bensíni og
díselolíu hérlendis
hefur hækkað
um ríflega 3% að
jafnaði frá byrjun
apríl samkvæmt
okkar mælingum.
Eldsneytisverð
vegur rúm 3% í
vísitölu neysluverðs, og því jafngildir
þessi hækkun 0,1% heildaraukningu
á neysluútgjöldum heimilanna
undanfarnar vikur,“ segir Jón Bjarki.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal þá er jafnvel gert ráð fyrir því, að verð geti haldið áfram að hækka á næstunni, þó framleiðsla hafi verið mikil að undanförnu, samkvæmt nýrri skýrslu OPEC ríkja.
Lágt olíuverð undanfarin ár hefur verið Íslandi hagfellt, þar sem það hefur hjálpað til við að halda verðbólgunni í skefjum. Verðbólga hér á landi mælist nú 2,3 prósent, en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.