Fyrir um tuttugu árum var ástand á húsnæðismarkaði borgarinnar gott. Jafnvægi var í framboði og eftirspurn og verðlagning þar af leiðandi eðlileg. Borgarbúar gátu farið ferða sinna á fjölskyldubílnum eða með Strætó án vandkvæða. Það var gott að búa í Reykjavík og borgin góð heim að sækja. Í dag eru breyttir tímar. Skálmöld ríkir á húsnæðismarkaði. Á götum borgarinnar situr allt fast og tjón er mælt í tugum milljarða fyrir vikið. Mengun er meiri en nokkru sinni fyrr því götur eru ekki þrifnar og viðhaldi ekki sinnt. Flugvöllurinn í Vatnsmýri á að víkja fyrir glerhöllum sem venjulegum borgurum er ofviða að kaupa eða leigja. Risavöxnu nýju þjóðarsjúkrahúsi skal troðið á umferðareyju við Hringbraut. Skólabörn sitja við sitthvor borðin í skólum borgarinnar, sum hlaðin mat önnur ekki, hér ræður efnahagur og aðstæður hverju sinni. Hvað gerðist? Jú, á síðustu tuttugu árum hafa þeir vinstri flokkar sem nú stýra borginni setið við völd og þetta er árangurinn!
Miðflokkurinn í Reykjavík ætlar að breyta þessu. Þar sem er vilji þar er vegur. Vandinn hefur verið greindur- lausnir hafa verið fundnar – nú skal framkvæmt!
Húsnæðismál tekin föstum tökum
Úlfarsárdalshverfi verður stækkað ofan Skyggnisbrautar og verklokum grunnstoða flýtt. Íbúar hafa beðið í tólf ár og nú er nóg komið. Margföldun byggingamagns á lóðum inni í byggðum hluta hverfisins með tilheyrandi bílastæðavanda og óþægingum kemur ekki til greina. Kjalarneshverfi verður stækkað og grunnstoðir bættar samhliða. Hér er aftur gætt að réttindum íbúa þeirrar byggðar sem fyrir er og á engan hátt þrengt að þeim. Geldinganes skipulagt og byggt upp með blandaðri byggð. Önnur úthverfi borgarinnar stækkuð eftir því sem kostur er. Í öllum tilfellum verður skipulagi og úthlutunarreglum hagað með þeim hætti að um hagkvæmt húsnæði sé að ræða fyrir fjölskyldur og einstaklinga og þar með hagkvæmt verð.
Samgöngu- gatna- og skipulagsmálum komið í viðunandi horf
Samningi vinstri flokka í borginni frá árinu 2012 við Vegagerð Ríkisins um frestun lífsnauðsynlegra úrbóta í vegamálum verður sagt upp og úrbætur hafnar. Hér vega stærst Sundagöng/braut, fjöldi mislægra gatnamóta við Miklubraut, mislæg gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg auk fjölda annara löngu tímabærra úrbóta. Frítt verður í Strætó fyrir alla borgarbúa og engum vísað frá.
Miðflokkurinn mun lögum samkvæmt endurskoða skipulag strax að loknum kosningum. Þar mun koma í ljós að allar forsendur eru brostnar fyrir uppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss og verður nýtt þjóðarsjúkrahús skipðulagt í landi Keldna. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýri. Hér verður komið í veg fyrir eitt stærsta skipulagsslys sögunnar sem myndi kaffæra miðborgina endanlega.
Öll skólabörn við sama borð
Frítt í Strætó, ókeypis matur í grunnskólum og tvöföldun frístundarkorts úr 50 þúsund í 100 þúsund vega þungt í að jafna kjör okkar yngstu. Hví hefur þetta ekki verið gert fyrr? Miklu fyrr?
Þann 26. maí fáum við tækifæri til að velja bestu leiðina fram á við - Grípum það og gerum X við M!
Höfundur er í 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík.