Brottfall drengja úr skólakerfinu og af vinnumarkaði er alvarlegt mál fyrir samfélagið. Þetta er meðal þess sem Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fjallar um ítarlegri grein í Vísbendingu, sem kemur til áskrifenda á föstudaginn.
Í greininni, sem ber heitið; Hvar eru drengirnir?, er fjallað ítarlega um áhrif brottfalls drengja úr skóla, kynjaskiptingu nemenda í háskólum og á vinnumarkaði, og hvað hagtölurnar eru að segja okkur um þessa þróun.
„Lífskjör þjóða, mæld í peningum, ráðast af ýmsum þáttum sem ráða verðmæti framleiðslu á mann: Fjármagn sem bundið er í framleiðslutækjum, tækni, stofnunum samfélagsins, utanríkisverslun, viðskiptakjörum og síðast en ekki síst menntun og mannauði þeirra sem landið byggja. En lífsgæði ráðast ekki einungis af verðmæti framleiðslu, launum og hagnaði heldur einnig af ýmsum öðrum þáttum eins og lengd vinnutíma, samskiptum fólks og tekjuskiptingu.
Launamunur kynjanna er eitt dæmi um oft óréttláta tekjuskiptingu. Réttilega er kvartað undan lægri launum kvennastétta og einkum lægri launum kvenna en karla fyrir sambærileg störf. Það á auðvitað ekki að líðast að tveir einstaklingar sem hafa sömu menntun og starfsreynslu og sinna sama starfi fái ekki greidd sambærileg laun eða hafi ekki sömu möguleika á framgangi í starfi.
Í umræðu um kynjamisrétti hefur hins vegar gleymst að nefna hvar hallar á karlkynið. Það gerist ekki vegna lægri launa heldur vegna þess að svo virðist sem mikill fjöldi drengja hverfi frá námi í menntaskóla og síðan háskóla. Það er rannsóknarefni hvað verður um drengina. Þetta brottfall er sumpart alvarlegra en það launamisrétti sem mest er fjallað um vegna þess að þarna á sér stað bæði sóun á framleiðsluþáttum fyrir þjóðfélagið og mögulega skert lífsgæði fyrir þúsundir drengja vegna takmarkaðs aðgengis að vinnumarkaði, lægri launa og skorts á menntun og þjálfun sem gæfi þeim lífsfyllingu. Brottfall drengja er þannig bæði slæmt fyrir framleiðni og réttlæti í samfélaginu og í því geta falist brostnar vonir foreldra, áhyggjur og stundum félagsleg og heilsufarsleg vandamál,“ segir meðal annars í grein Gylfa.
Hér er hægt að gerast áskrifandi að Vísbendingu.