Íslenska tæknifyrirtækið Teatime hefur aflað 7,5 milljóna dollara, sem samsvarar 770 milljónum króna, í nýtt hlutafé. Meðal stofnenda fyrirtækisins er Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla. Hann er jafnframt stjórnandi Teatime.
Frá þessu er greint í Markaðnum í dag, en áður hafði félagið tilkynnt um að hafa lokið 1,6 milljón Bandaríkjadala fjármögnun.
Teatime vinnur að því að þróa búnað fyrir farsímaleiki, og segir Þorsteinn í viðtali við Markaðinn að mikill áhugi hafi verið á starfsemi Teatime, alveg frá því það hóf starfsemi.
Meirihluti félagsins er enn í eigu Íslendinga, og er ætlunin að fjölga starfsfólki á næstunni, úr 13 í 20, en félagið er með starfsemi á Íslandi.
Aðalfjárfestirinn í hlutafjáraukningunni er Index Ventures, fjárfestingarsjóður sem hefur fjárfest í leikjafyrirtækjum á borð við King, Roblox og Supercell.
Fjárfestingarsjóðurinn
Atomico, sem
hefur meðal annars fjárfest í leikjafyrirtækjunum
Supercell, Rovio og
Bossa Studios, tekur einnig þátt í
hlutafjáraukningunni, að því er segir í umfjöllun Markaðarins.