Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Kaupþing hafa náð saman um að forkaupsréttur ríkisins á hlutum í bankanum verði „aðlagaður“ á þann hátt að hann muni ekki gilda við frumskráningu Arion banka á skipulegan verðbréfamarkað og sölu á hlutum Kaupþings/Kaupskila sem fyrirhuguð er í tengslum við skráninguna.
Forkaupsrétturinn muni hins vegar að öðru leyti standa óhaggaður eftir það. Frá þessu er greint í tilkynningu frá íslenska ríkinu.
Forkaupsréttur íslenska ríkisins var tryggður í stöðugleikasamningi við kröfuhafa Arion banka. Samkvæmt honum virkjast réttur ríkisins til að ganga inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef verðið í þeim viðskiptum fer niður fyrir 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka.
Aðlögunin felur því í sér að hægt verði að selja hluti í Arion banka á lægra verði en því í útboðinu sem greint var frá í morgun að muni fara fram fyrir júnílok.
Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að áskilið sé að núverandi hluthafar í Arion banka, sem einnig eru hluthafar í Kaupþingi, stærsta eiganda Arion banka, muni ekki auka við hlut sinn við frumskráninguna.
Í tilkynningunni segir: „Ríkið mun fylgjast grannt með skráningar- og söluferlinu og mun tilnefna eftirlitsaðila sem mun fylgjast með og hafa aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem varða ferlið.“
Kjarninn mun fjalla ítarlega um málið í fréttaskýringu síðar í dag.