Töluvert hægði á vexti útflutnings þjónustu í fyrra eftir hraðan vöxt árin á undan. Þar munar mestu um ferðaþjónustu, sem nú er orðin hryggjarstykki í íslenska hagkerfinu.
Útflutningur þjónustu jókst um liðlega átta prósent árið 2017 en á árunum 2015 og 2016 var vöxturinn að meðaltali rúmlega 17 prósent á ári, að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands.
Útflutt þjónusta jókst þó töluvert hraðar í fyrra en gert var ráð fyrir í febrúar sem skýrist af óvæntum vexti útflutnings hugverka fyrirtækja í lyfjaiðnaði á fjórða ársfjórðungi, að því er segir í Peningamálum.
Þessi liður hafði dregist verulega saman á þriðja ársfjórðungi og bentu upplýsingar sem þá lágu fyrir til þess að hér væri um varanlegan samdrátt að ræða.
Svo reyndist hins vegar ekki vera og er það helsta ástæða þess að heildarútflutningur jókst um 4,8 prósent í fyrra en ekki 3,2% eins og gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans. Eins og áður er talið að hægja muni á vexti útflutnings á spátímanum í takt við hækkandi raungengi.
Seðlabankinn spáir því að gengið krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum muni halda áfram að styrkjast, og haldist þannig fram á næsta ár.
Evra kostar nú 123 krónur en Bandaríkjadalur rúmlega 104 krónur, en gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal hefur veikst um rúmlega fimm prósent á undanförnum vikum.