Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var óbreytt milli mánaða í apríl samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár Íslands, en hún lækkaði lítið eitt, um 0,1 prósent, mánuinn á undan.
Verð fjölbýlis stóð í stað milli mars og apríl en sérbýli hækkaði í verði um 0,2% milli mánaða.
Vísitala íbúðaverðs hefur nú hækkað um 5,4% undanfarið ár. Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki mælst minni síðan í mars 2013 eða í rúmlega fimm ár.
Flestar spár greinenda hafa gert ráð fyrir umtalsvert meiri hækkunum á markaði, fyrir þetta ár, en þær hafa ekki gengið eftir það sem af er ári, og svo virðist sem það sé farið að hægja verulega á hækkunum, sem markaðurinn hefur einkennst af undanfarin fimm ár.
Þrátt fyrir það, er töluverð spenna á markaðnum, þar sem vöntun er á eignum, einkum litlum og meðalstórum.
Ásgeir Jónsson, doktor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið í dag, að verð á litlum og meðalstórum eignum sé nú orðið hátt, einkum fyrir fyrstu kaupendur, en það geti sett enn meiri þrýsting á leigumarkaðinn.