Alls fluttust 8.240 manns til Ísland í fyrra umfram þá sem fluttu af landi brott. Langflestir þeirra voru erlendir ríkisborgarar, en 7.888 fleiri slíkir fluttu til Íslands en frá landinu á árinu 2017. Alls fluttust 14.929 til landsins en 6.689 frá því. Það er langmesti fjöldi erlendra ríkisborgara sem hingað hefur flutt á einu ári í sögu landsins. Fyrra metið var sett árið 2007 þegar 12.546 fluttu hingað. Fjöldi aðfluttra í fyrra var því 19 prósent meiri en á fyrra metári.
Á tveimur árum, 2016 og 2017, fluttu 12.103 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því. Til samanburðar má nefna að átta árin þar á undan var samanlagður fjöldi erlendra ríkisborgara sem flutti til Íslands umfram þá sem fluttu burt 5.568. Fjöldinn sem hingað hefur flutt á síðustu tveimur árum er auk þess meiri en hann var á góðærisárunum 2006 og 2007. Þá fluttu samtals 10.834 erlendir ríkisborgarar til Íslands umfram þá sem fluttu á brott. Aukningin á síðustu tveimur árum er því um tólf prósent umfram þann aðflutning sem átti sér stað þá.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands sem birtar voru í dag.
Fleiri Íslendingar komu en fóru
Sá fjöldi sem flutti hingað til lands er langt umfram spár. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar til ársins 2065 var til að mynda gert ráð fyrir að aðfluttir umfram brottflutta yrðu 5.119 í fyrra. Raunin varð, líkt og áður sagði 8.240. Það þýðir að 60 prósent fleiri fluttu til landsins umfram þá sem fóru en spáin gerði ráð fyrir.
Athygli vekur að fleiri Íslendingar fluttu til landsins á árinu 2017 en frá því. Munurinn var ekki mikill, 352 fleiri landsmenn komu heim en fóru. Þetta er þó merkilegt vegna þess að þetta er í fyrsta sinn í ellefu ár sem fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja til landsins en frá því. Og einungis í annað sinn frá aldarmótum sem það gerist. Hitt árið var 2005 þegar 118 fleiri komu en fóru. Frá lokum árs 2005 og til loka árs 2016 fluttu 9.547 fleiri Íslendingar í burtu en komu aftur heim.
Þessi mikli brottflutningur íslenskra ríkisborgara á allar síðustu árum, eftir að efnahagsviðsnúningur hafði átt sér stað hérlendis og hagvöxtur var mikill, vakti mikla athygli. Þrátt fyrir lága verðbólgu, nánast ekkert atvinnuleysi, mikinn hagvöxt og mikla styrkingu krónu fóru marktækt fleiri Íslendingar frá landinu en fluttu til þess á árunum 2014 og 2015.
Aðeins fimm sinnum áður frá árinu 1961 höfðu marktækt fleiri brottfluttir verið umfram aðflutta. Í öll þau skipti var það í kjölfar kreppuára hér á landi, meðal annars árin 2009-2011. Árin 2014 og 2015 var hins vegar góðæri.
4.549 nýir Pólverjar
Um 40 prósent þeirra sem fluttu til og frá landinu í fyrra voru á þrítugsaldri. Flestir sem flytjast hingað eru með pólskt ríkisfang en til landsins fluttust alls 4.549 einstaklingar frá Póllandi í fyrra.
Mun fleiri karlar flytja til Íslands en konur, eða 2.894 umfram konurnar.
Langflestir þeirra sem fluttu umfram þá sem fóru settust að á höfuðborgarsvæðinu, eða 4.311 manns. Þá fluttu 1.574 manns á Suðurnes og 1.060 á Suðurland.
Ástæða hinnar miklu aukningar á komu erlendra ríkisborgara til landsins er sú að efnahagsástandið á Íslandi er með besta móti og mikill skortur er á vinnuafli hérlendis, sérstaklega í tengslum við ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Talið er að það þurfi að minnsta kosti yfir tvö þúsund manns að flytja hingað árlega til að vinna umfram þá sem fara til að viðhalda væntum hagvexti.