Margt bendir til samdráttar í ferðaþjónustu og að væntingar um vöxt greinarinnar í ár gangi ekki eftir, að því er segir í Morgunblaðinu, en þar er rætt við rekstraraðila í greininni sem segjast finna fyrir skýrum kólnunareinkennum.
Eru það meðal annars hóteleigendur, veitingahúsaeigandi og eigandi afþreyingarfyrirtækis. Flestir kvarta undan sterku gengi krónunnar, og að augljóst sé að ferðamenn eyði minnu nú en áður.
Hrefna Sætran veitingahúsaeigandi segir að margir séu nú farnir að hagræða. „Það er verið að loka stöðum í miðbænum. Þetta er allt orðið erfiðara,“ segir Hrefna í viðtali við Morgunblaðið.
Í nýjustu peningamálum Seðlabanka Íslands er einnig fjallað um, að nokkuð sé tekið að hægja á vexti í ferðaþjónustunni eftir ævintýralegan uppgang á undanförnum árum.
Um 40 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbússins koma til vegna ferðaþjónustu en spár gerðu ráð fyrir því, í byrjun árs, að þær gætu farið í hátt í 600 milljarða króna á þessu ári.
Í fyrra komu um 2,3 milljónir manna til landsins. Aukningin hefur verið svo til stanslaus allt frá árinu 2010, þegar innan við 500 þúsund ferðamenn sóttu landið heim.