Hróbjartur Jónatansson hrl. hyggst leggja fram tillögu á aðalfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins, þess efnis að sjóðurinn leiti til óháðra lögmanna og endurskoðenda til þess að meta hvort ráðgjöf Arion banka til sjóðsins um ríflega 1.200 milljóna króna fjárfestingu í United Silicon standist lög.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en Hróbjartur hefur í blaðagreinum gagnrýnt sjóðinn, þar sem hann er sjóðfélagi, fyrir óábyrgar fjárfesting í tengslum við uppbyggingu United Silicon í Helguvík. „Nú liggur fyrir að þessir fjármunir eru glataðir og að sjóðfélagar sitji uppi með tjónið,“ segir Hróbjartur í samtali við Morgunblaðið.
Hann hyggst einnig bjóða sig fram til stjórnarsetu í sjóðnum. Með því segist hann vilja beita sér fyrir því að skilið verði milli Frjálsa og Arion banka, sem annast rekstur sjóðsins og skipar auk þess þrjá af fjórum fulltrúum í stjórn.
Þá hyggst Halldór Friðrik Þorsteinsson leggja fram breytingartillögu á samþykktum sjóðsins, númer 4.9, en hún er svona:
„Arion banki hf. skal annast daglegan rekstur sjóðsins skv. rekstrarsamningi sem stjórn sjóðsins
og Arion banki hf. gera þar að lútandi. Þetta samkomulag skal sent Fjármálaeftirlitinu eða öðru
hlutaðeigandi stjórnvaldi til kynningar.“
Halldór Friðrik vill að þetta verði fellt út úr samþykktum sjóðsins, svo hún bindi ekki stjórn sjóðsins til að skipta við Arion banka þegar kemur að rekstri hans.