Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins ætlar að ritstýra blaðinu í mörg ár í viðbót. Þetta sagði hann í samtali við Pál Magnússon þingmann Sjálfstæðisflokksins í útvarpsþættinum Þingvellir á K100 í morgun.
Aðspurður um hvort hann hafi hugsað sér til hreyfings hafandi verið á blaðinu nú í tæp níu ár og orðinn sjötugur, sagði Davíð að hann hafi engin tilmæli fengið frá eigendum Árvakurs, útgáfufélagi Morgunblaðsins, og líti því svo á að hann geti verið þar áfram í fimm, sex til sjö ár.
Davíð kom víða við í viðtalinu. Hann sagði hrunið hafa markað þáttaskil þegar kemur að velgengi Sjálfstæðisflokksins. Sú ríkisstjórn flokksins sem tók við af vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2013 hafi ekki gert nein skil, engin mikil breyting hafi orðið eftir að sú stjórn tók við, engin kaflaskil. Fólk verði að hafa sannfæringu fyrir því að flokkur skipti máli í ríkis- eða sveitarstjórn.
Um hrunið sagði Davíð að Íslandi hafi verið að elta losaragang Evrópusambandsins, við höfum ekki haft leyfi til að setja hér strangari reglur en þar giltu. Nú sé nauðsynlegt að hafa reglur skýrar varðandi uppskiptingu bankakerfisins.
Davíð sagðist í ársbyrjun árið 2008 hafa farið á fund helstu forystumanna ríkisstjórnarinnar til að vara þá við en það hafi ekki hreyft við þeim þar sem bankamennirnir segðu þeim að allt væri í lagi og vísuðu í endurskoðaða reikninga. Hann telur að ef það hefði sýnt sig út á við að Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið hefðu allt það ár verið að hamast í að bjarga íslenska fjármálakerfinu hefði það ef til vill breytt því hvernig aðrir aðilar sæju Ísland þegar á hólminn var komið og vísaði sérstaklega í Gordon Brown fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands sem setti hryðjuverkalista í hruninu. Á hann hafi hins vegar ekki verið hlustað. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi utanríkisráðherra hafi kallað þetta útaustur eins manns og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafi, eftir að Glitnir var tekinn yfir, talað um að ekki ætti að dramatísera málið. Hann sagðist ekki geta útilokað að einhverju hefði verið hægt að breyta þó hann geti ekki sannað það.
Davíð sagðist telja að ekki hafi verið þægilegt að búa til aðra ríkisstjórn en þá sem nú situr. Stjórn með Miðflokki og Framsókn saman hafi ekki verið með í spilunum þar sem formaður Framsóknar hafi verið harður á því að vilja ekki vera með Miðfloknum, „ætlar að drepa þann flokk af sér“. Davíð sagðist telja að skynsamlegra væri að ná þessum hópum saman í eitt afl aftur. Hann sagðist kunna vel við Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins, hafi þekkt foreldra hans, afa og ömmu vel.
Um brotthvarf hans úr Seðlabankanum sagðist Davíð ekki vera bitur út í þáverandi stjórnvöld, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Hann sagði þó að þetta hafi verið í eina skiptið á Vesturlöndum sem ráðist hafa verið á sjálfstæði Seðlabanka og að hann hafi tekið það nærri sér að hinum tveimur seðlabankastjórunum hafi verið bolað í burtu vegna hans. Eðlilegra hefði verið samkvæmt Davíð að ljúka rannsóknarskýrslunni af sem þá hafði verið sett af stað, og ákveða svo hvort þeir ættu að vera áfram í bankanum. „Mér var mjög brugðið að þetta skyldi hafa gerst með þessum hætti.“ Hann sagðist telja að þessar aðfarir hafi „lækkað risið á þessu fólki“. Ávallt hafi verið gott á milli hans og Jóhönnu en að hann telji að hún hafi orðið að gera þetta, hún hafi borgað fyrir forsætisráðherra embættið með þessu. Þá sagðist hann telja að Steingrímur geti reynst ágætur þingforseti og að ómældur vilji sé í þjóðfélaginu um að gefa Katrínu Jakobsdóttur tækifæri til að vera forsætisráðherra og vonar að henni farnist vel.