Guðjón Rúnarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, fékk 11.794.491 krónur greiddar í apríl vegna vinnu hans sem formanns nefndar sem falið var að vinna tillögur um skipulag bankastarfsemi á Íslandi. Guðjón var auk þess starfsmaður nefndarinnar. Greiðslan kemur fram á síðunni opnirreikningar.is þar sem segir að hún sé vegna sérfræðistarfa.
Guðjón var skipaður í nefndina 1. júlí 2017 og til verkloka hennar, en nefndin lauk störfum með því að skila inn skýrslu til ráðuneytisins. Upphafleg verklok voru í nóvember 2017 en þau töfðust og urðu á endanum í janúar 2018.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið segir fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að fyrir vinnu að verkefninu hafi verið greiddar 16.500 krónur á klukkustund að viðbættum virðisaukaskatti. Greiðslurnar voru fyrir átta vinnustundir á virkum dögum frá 10. október og til verkloka. „Að auki var greitt skv. tímaskýrslu fyrir undirbúningstímabil fram að 9. október. Greitt var samkvæmt tímaskýrslu og reikningi verksala sem barst skal tengilið fjármála- og efnahagsráðuneytis. Alls var greitt fyrir 574 vinnustundir.“
Guðjón var í kjölfarið skipaður í starfshóp sem vinna á hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Sá hópur var skipaður í byrjun febrúar og átti að ljúka vinnu sinni með skýrslu til fjármála- og efnahagsmálaráðherra fyrir 15. maí 2018. Henni hefur enn ekki verið skilað inn.
Starfsumgjörð fjármálamarkaðar gjörbylt frá 2008
Nefndin sem vann tillögur um skipulag bankastarfsemi á Íslandi skilaði skýrslu sinni í lok janúar 2018. Í niðurstöðum hennar kom fram að starfsumgjörð fjármálamarkaðar hafi verið gjörbylt frá fjármálakreppunni 2008 og breytingar í regluverki og eftirliti tekið á helstu áhættum sem gerðu bankakerfið fallvalt í aðdraganda hennar. „Bankarnir standi nú styrkum fótum og ekkert bendi til þess að það breytist á næstu misserum. Í ljósi sögunnar sé samt skynsamlegt að dregin verði varnarlína um hvað fjárfestingarbankastarfsemi á grunni beinnar og óbeinnar stöðutöku geti vaxið mikið hjá stærstu bönkunum, þeim sem teljast kerfislega mikilvægir hér á landi,“ segir meðal annars í útdrætti úr helstu niðurstöðum hópsins.
Nefndin tók mörg viðtöl við vinnu sína, við innlenda og erlenda bankamenn, til að fá fram sem flest sjónarmið.
Í lok skýrslunnar voru dregin saman atriði sem nefndin taldi að þurfi að huga betur að og lagði fram tillögur að úrbótum. „Nefndin leggur til að ef einhver af kerfislega mikilvægu bönkunum hefur í hyggju að auka þá fjárfestingarbankastarfsemi sem felst í beinni og óbeinni stöðutöku umfram sem nemur 10-15% eiginfjárbindingu af eiginfjárgrunni, sé þeim banka frjálst að gera það enda verði stofnað sérstakt félag um fjárfestingarbankastarfsemina. Félögin geta verið hluti af sömu samstæðu, en þau verði með óháða stjórn, stjórnendur og fjárhag. Slík breyting á lögum um fjármálafyrirtæki verði í anda þeirra lagabreytinga sem gerðar hafa verið í Bretlandi á grunni Vickers-skýrslunnar frá 2011. Til vara leggur nefndin til að löggjafinn veiti Fjármálaeftirlitinu skýra heimild og skyldu til að grípa til aðgerða ef eftirlitið telur að fjárfestingarbankastarfsemi tiltekins banka sé orðin það viðamikil að hún skapi áhættu fyrir viðskiptabankann. Í þeim efnum skal haft í huga að eftirlitið hefur í dag heimildir til að grípa inn í rekstur banka, en þær eru mjög almennar og því hætta á að hart yrði deilt um lögmæti slíkrar ákvörðunar og inngrip gætu dregist um of. Þá kallar nefndin eftir því að eftirlitsaðilar skilgreini þá hluta af starfsemi viðskiptabankanna sem verður ávallt að vera uppi til að þjóna almenningi og rekstri fyrirtækja í landinu. Mikilvægt er að enginn vafi leiki á því hvaða starfsþættir það eru.“