Gengi krónunnar hefur veikst um rúmlega 10 prósent gagnvart evru og danskri krónu, 9 prósent gagnvart breska pundinu og fimm prósent gagnvart Bandaríkjdala, á undanförnu ári. Gengissveiflurnar hafa verið þó nokkrar, bæði til styrkingar og veikingar, en sé litið yfir síðustu tólf mánuði þá hefur gengi krónunnar veikst gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum.
Krónan telst sterk, eins og gengisskráningin er nú, og hafa birst að undanförnu áhyggjuraddir, meðal annars frá útflutningsfyrirtækjum, vegna þessa.
Á undanförnum þremur vikum hefur gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal veikst nokkuð skarpt, en Bandaríkjadalur kostaði fyrir skemmstu 99 krónur og en kostar nú 105 krónur.
Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi verið að veikjast, hægt og bítandi, þá telur Seðlabanki Íslands að mestar líkur séu til þess, að gengi krónunnar haldist áfram nokkuð stöðugt miðað við það sem hún er í dag, fram á næsta ár, en sú spá birtist í nýjustu útgáfu Peningamála.
Forsendurnar eru þó þær, að áfram verði myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Ferðaþjónusta hefur verið burðarstólpinn í útflutningstekjum þjóðarbússins undanfarin ár, en í fyrra voru gjaldeyristekjur vegna hennar um 40 prósent af heildinni.
Flestar hagspár fyrir þetta ár, gerðu ráð fyrir áframhaldandi vexti ferðaþjónustunnar á þessu ári, en útlit er fyrir hægja muni nokkuð á þeim vexti. Seðlabankinn tekur fram í spá sinni, að allt sé óvissu háð í spánni, og að ef það verði töluverður samdráttur í ferðaþjónustu, þá muni það koma fram í veikara gengi krónunnar.
Í apríl mældist í fyrsta skipti samdráttur milli ára, þegar um 4 prósent fækkun var á komu ferðamanna til landsins, miðað við sama mánuði í fyrra.