„Það verður áhugavert að heyra sjónarmið sjóðsfélaga. Sjálfum finnst mér klént að reka 200 milljarða lífeyrissjóð í eigu 55 þúsund sjóðfélaga, eins og skúffu í fjárfestingarbanka. Það er alfarið á valdi sjóðfélaganna að breyta því úrelta fyrirkomulagi,“ segir Halldór Friðrik Þorsteinsson, sjóðfélagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum, í aðsendri grein í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Halldór Friðrik býður sig fram til stjórnarsetu í sjóðnum, en aðalfundur sjóðsins fer fram 30. maí næstkomandi.
Halldór Friðrik hyggst leggja fram tillögu um að breyta samþykktum sjóðsins á þann veg, að Arion banki þurfi ekki að annast rekstur sjóðsins.
Ákvæðið í samþykktunum er svona: „Arion banki hf. skal annast daglegan rekstur sjóðsins skv. rekstrarsamningi sem stjórn sjóðsins
og Arion banki hf. gera þar að lútandi. Þetta samkomulag skal sent Fjármálaeftirlitinu eða öðru
hlutaðeigandi stjórnvaldi til kynningar.“
Í grein sinni í Markaðnum segir Halldór Friðrik það vera úrelt fyrirkomulag, að lífeyrissjóðir séu í rekstri banka en sjóðfélagar Frjálsa lífeyrissjóðsins eru nú um 55 þúsund talsins. Hann gerir einnig 1.200 milljóna tap sjóðsins af uppbyggingu kísilvers United Silicon að umtalsefni. „Þá raunasögu þarf ekki að endursegja en ein afleiðing hennar var fjárhagstap tugþúsunda sjóðfélaga fyrir vel á annað þúsund milljónir króna. Það er umhugsunarvert að einu lífeyrissjóðirnir sem sáu ástæðu til að leggja lífeyrissparnað fólks í þetta áhættumikla tilraunaverkefni voru í umsjón Arion banka, að frátöldum Festu lífeyrissjóði sem starfar mestanpart á Suðurnesjum. En þetta undrar engan sem þekkir til innstu kima í fjárfestingarbönkum. Þeir eru í eðli sínu áhættusæknir og hagsmuna- árekstrar hljótast af nálægð ólíkra starfssviða. Ádrepur frá eftirlitsaðilum breyta því miður litlu um,“ segir Halldór Friðrik í grein sinni.