Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, skrifa ítarlega grein um stöðu efnahagsmála í útgáfu Vísbendingar, sem kemur til áskrifenda á föstudaginn.
Í greininni fjallar hann meðal annars um hvaða áhrif það kynni að hafa, ef það yrði samdráttur í ferðaþjónustu. Hann segir stöðu hagkerfisins mun heilbrigðari og betri nú, en fyrir rúmum áratug, þegar hagkerfið var skuldum vafið áður en bankarnir hrundu svo í október 2008.
Gylgi gerir sterkt gengi krónunnar meðal annars að umtalsefni, og þá í samhengi við stöðu ferðaþjónustunnar.
„Það eru þannig útflutningsgreinarnar sjálfar sem hafa valdið styrkingu krónunnar og hækkun raungengis. En hærra raungengi þýðir að hagnaður í ferðaþjónustu af hverjum ferðamanni fer þá lækkandi. Hvert fyrirtæki í ferðaþjónustu sem verður til þess að fjölga ferðamönnum hér á landi með markaðssetningu, auglýsingum eða auknu sæta framboði í flugi stuðlar að hærra hlutfallslegu verðlagi sem skerðir samkeppnisaðstöðu annarra aðila í greininni. Greinin sem heild vex þá of hratt í þeim skilningi að hagnaður gæti verið meiri við hægari vöxt. En eitt fyrirtæki tapar á því að draga umsvif sín saman á meðan önnur hagnast. Þess vegna hefur enginn hagsmuni af því að gera það sem gæti verið ferðaþjónustunni í heild í hag. Við slíkar aðstæður er þörf á afskiptum hins opinbera. Þannig hefði verið unnt að fjölga lendingastæðum á Keflavíkurflugvelli hægar, leggja á komugjöld eða hækka gistináttagjöld en slíkt hefur ekki verið gert. Engin stjórn hefur þannig verið á fjölgun erlendra ferðamanna og þá hægir einungis á henni þegar landið er orðið of dýrt fyrir marga ferðamenn,“ segir meðal annars í grein hans.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.