Heildarútgjöld hins opinbera vegna hælisleitenda voru um 3,4 milljarðar króna í fyrra. Samtals hefur hann numið um 6,9 milljörðum króna frá upphafi árs 2012. Þessar greiðslur ná yfir allan kostnað sem hlýst að veru hælisleitenda hérlendis, starfsemi Útlendingastofnunar sem fellur til vegna málarekstrar umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá stofnuninni og kostnaði af rekstri kærunefndar útlendingamála sem tengist málaflokknum. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Flokks fólksins, um útgjöld vegna hælisleitenda.
Inni í þessum tölum greiðslur til sveitarfélaga vegna þeirrar þjónustu sem þau veita umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þar er Reykjavík langstærsti þjónustuveitandinn en alls fékk hún 411 milljónir króna í fyrra vegna þjónustu við hælisleitendur. Hafnarfjörður fékk 44 milljónir króna. Útlendingastofnun er auk þess með þjónustusamning við Reykjanesbæ en í svarinu kemur ekki fram hverjar greiðslur til þess sveitarfélags voru í fyrra.
Í uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrri hluta árs 2017 kom fram að hrein útgjöld vegna hælisleitenda á því tímabili hafi verið mun hærri en upphaflega áætlað var. Þar sagði: „Í fjárheimildum vegna ársins 2017 voru verulega vanáætlaðar í fjárlagagerð fyrir árið 2017 í ljósi fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna á síðustu mánuðum ársins 2016. Kostnaður vegna þessara umsókna hefur að mestu leyti fallið til á yfirstandandi ári.“
Tryggja ákveðna grunnþjónustu
Í svarinu segir að Útlendingastofnun og sveitarfélögin þrjú tryggi ákveðna grunnþjónustu á meðan umsækjandi sem bíður niðurstöðu vegna umsóknar sinnar dvelur í úrræði á vegum Útlendingastofnunar eða sveitarfélags sem stofnunin hefur gert þjónustusamning við. „Ef undan er skilin sú grunnþjónusta sem snýr að húsnæði, uppihaldi, skólagöngu og heilbrigðisþjónustu, þá eru umsækjanda tryggðar án endurgjalds samgöngur vegna erinda sem varða umsókn hans, félagsleg ráðgjöf hjá sveitarfélagi, túlkaþjónusta, íslenskukennsla, internetaðgangur og upplýsingastreymi um afþreyingu í nærumhverfinu. Sveitarfélag getur veitt aukna þjónustu, ákveði það svo.“
Börnum sem sækja um alþjóðlega vernd og falla undir skólaskyldu er einnig tryggð skólaganga. Áður en barn fer í skóla fer það í læknisskoðun samkvæmt reglum sóttvarnalæknis. „Í þeim tilvikum þar sem barn er búsett í úrræði á vegum Útlendingastofnunar er barninu tryggð skólaganga í Hafnarfirði. Alla jafna hefst skólaganga 4–6 vikum eftir komu, en það ræðst af því hversu fljótt læknisskoðun fer fram og niðurstaða liggur fyrir.“
Hælisleitendum fækkaði á milli ára
Flóttamönnum sem sóttu um hæli á Íslandi fækkaði á milli áranna 2016 og 2017 og fjöldi þeirra sem voru í þjónustu Útlendingastofnunar eða sveitarfélaga dróst saman um þriðjung. Þá hafa færri flóttamenn sótt um hæli hér á landi það sem af er ári en gerðu það á sama tímabili í fyrra, en alls 181 gerði slíkt á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2018.
Á öllu síðasta ári sóttu 1.096 manns um hæli á Íslandi. Það eru færri en sóttu um hæli á Íslandi á árinu 2016. Þá fengu alls 135 alþjóðlega vernd og leyfi til að dvelja hér áfram, en árið 2017 voru alls 1.293 umsóknir um slíkt afgreiddar. Því fékk einn af hverjum tíu hælisleitendum sem fékk niðurstöðu í hæli á Íslandi.
Þeim hælisleitendum sem voru í þjónustu sveitarfélaga eða Útlendingastofnunar fækkaði mikið í fyrra. Þeir voru 820 í byrjun desember 2016 en 559 í byrjun sama mánaðar 2017. Það þýðir að hælisleitendum sem voru á forræði ríkis eða sveitarfélaga fækkaði um tæpan þriðjung á einu ári.
Þeir sem hafa sótt um hæli og bíða eftir að mál þeirra fái afgreiðslu fá framfærslueyri. Hann er átta þúsund krónur fyrir einstakling á viku en 23 þúsund krónur hjá fjögurra manna fjölskyldu. Auk þess fær hver fullorðinn hælisleitandi 2.700 krónur í vasapening á viku og foreldrar fá viðbótar ert barn.