Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir að flokkurinn hafi gengið óbundinn til kosninga. „Við höfum sagt að við getum starfað með öllum hér,“ segir hún. Þetta kom fram í Silfrinu í dag en þar ræddu Egill Helgason og Fanney Birna Jónsdóttir við oddvita flokkanna sem hlutu kosningu í Reykjavík í gær.
Þórdís Lóa telur að borgarbúar séu að kalla eftir breytingum og að nú séu komnir inn nýir flokkar sem byrja á núlli, öfugt við það sem verið hefur. Hún og Pawel Bartoszek eru borgarfulltrúar Viðreisnar en flokkurinn fékk 8,16 prósent atkvæða í kosningunum í gær.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir að niðurstaðan sé skýr og að eðlilegt sé að horft sé á hana þegar ræða skal meirihlutasamstarf. Hann segir enn fremur að nýjar raddir séu komnar í stjórnmálum í borginni sem þurfi að heyrast. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30,77 prósent atkvæða og er því stærsti flokkurinn í Reykjavík.
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borginni, telur að stærsti flokkurinn eigi að leiða viðræðurnar og vísar þar með til Sjálfstæðisflokksins. Hún telur að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, muni ekki fórna borgarstjórnarstólnum og sé Viðreisn í lykilstöðu til að mynda meirihluta með þeim og Flokki fólksins. Hún telur þann meirihluta vera málefnalegan.
Sanna Magdalena Mörtudóttir og Sósíalistaflokkurinn fengu góða kosningu í gær en þau hlutu 6,37 prósent atkvæða. Þetta er í fyrsta skiptið sem flokkurinn býður fram og segir Sanna að þetta sé allt nýtt fyrir þau og komi þau að borðinu með sína persónulegu reynslu. Hún segir að of snemmt sé að segja til um með hvaða flokki þau vilji vinna en að þau leggi áherslu á að koma valdinu til fólksins og að mikilvægt sé að það hafi meira að segja um líf sitt.