Friðrik Baldursson, prófessor í hagfræði og formaður nefndar sem metur hæfi umsækjenda um stöðu aðstoðarseðlabankastjóra, var að mati forsætisráðuneytisins og hinna sem í nefndinni áttu sæti, hæfur til þess að vera formaður nefndarinnar, en sérstök skoðun fór fram á stöðu hans eftir kvörtun frá einum umsækjanda.
Þetta staðfesti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, í samtali við Kjarnann, en hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hvaða umsækjandi það hefði verið, sem hefði lagt fram kvörtun yfir meintu vanhæfi, eða hver aðfinnsluatriðin hefðu verið.
Samkvæmt heimildum Kjarnans snéru þau að störfum Friðriks Más fyrir GAMMA, en hann var um tíma ráðgjafi fyrirtækisins.
Var meðal annars byggt á vanhæfisástæðum stjórnsýslulaga. Samkvæmt 3. grein stjórnsýslulaga, þar sem fjallað er um vanhæfisástæður, geta menn talist vanhæfir ef þeir eiga sjálfir sérstakra eða verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn viðkomandi eða sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem þeir eru í forsvari fyrir.
Var meðal annars horft til þess að GAMMA geti meðal annars haft hagsmuni að ýmsu sem snýr að ákvörðunum Seðlabankans um framkvæmd peningastefnu og eftir atvikum önnur atriði, sem hafa áhrif á fjármálamarkaði.
Aðrir í nefndinni eru Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands. Þau töldu Friðrik Má hæfan, og það sama átti við um lögfræðinga forsætisráðuneytisins.
Í yfirlýsingu frá þremur forystumönnum í verkalýðshreyfingunni, Aðalsteini Árna Baldurssyni, formanni Framsýnar, Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, og Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, er fjallað um stöðu Friðriks Más í fyrrnefndri nefnd. Er hann í yfirlýsingunni sagður vanhæfur til að skipa stjórnendur Seðlabanka Íslands, en yfirskrift yfirlýsingarinnar er; Hver vill vekja verðbólgudrauginn?. Í yfirlýsingunni segir orðrétt: „Öllum, sem fylgst hafa með efnahagsmálum, má ljóst vera að Friðrik Már Baldursson er samkvæmt þessu vanhæfur sem formaður hæfisnefnda fyrir lykilstöður Seðlabanka Íslands – þegar litið er til dómaframkvæmdar um vanhæfisreglur stjórnsýsluréttar. Þær eru náskyldar hæfisreglum réttarfars, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar 17. maí sl. í máli nr. 752/2017 er tengdist einum bankanna en tengsl hins vanhæfa héraðsdómara við bankann voru mun minni en tengsl Friðriks Más við Gamma. Áhrif vanhæfis í slíkum tilvikum eru að stöðuveiting er væntanlega ógildanleg. Embættisfærslur af því tagi af hendi forsætisráðherra geta ekki annað en vakið upp vantraust meðal almennings og minnkandi trú á sjálfstæði Seðlabankans,“ segir í yfirlýsingunni.
Embætti aðstoðarseðlabankastjóra var auglýst laust til umsóknar þann 21. febrúar sl. en skipað er í starfið frá 1. júlí.
Búast má við því að ráðningarferlinu ljúki á næstu vikum, en það er forsætisráðherra sem skipar í starfið að lokum.
Arnór Sighvatsson er núverandi aðstoðarseðlabankastjóri, en starfstími hans er að renna út lögum samkvæmt.
Umsækjendurnir um starfið eru:
Daníel Svavarsson, hagfræðingur.
Guðrún Johnsen, hagfræðingur.
Stefán Hjalti Garðarsson, reikni- og fjármálaverkfræðingur.
Jón Þ. Sigurgeirsson, viðskiptafræðingur.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur.
Ludvik Elíasson, hagfræðingur.
Ólafur Margeirsson, hagfræðingur.
Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur.
Tryggvi Guðmundsson, hagfræðingur.
Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur.
Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur.