Jakob Már Ásmundsson hefur tilkynnt um afsögn sína úr stjórn Arion banka vegna óæskilegrar hegðunar af hans hálfu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.
Í bréfi sem Jakob sendi til stjórnar Arion banka segir að síðastliðinn fimmtudag hafi komið upp atvik í gleðskap á vegum bankans, þar sem hann drakk of mikið áfengi og fór yfir strikið í samskiptum hans við starfsmenn og viðskiptavini. „Þar sagði ég hluti sem eru mér ekki samboðnir og kvartað var yfir. Ég sé mikið eftir þessu og vil axla ábyrgð á gjörðum mínum með því að segja mig úr stjórninni. Bankinn er í söluferli þar sem mikilvægt er að vel takist til,“ segir Jakob.
Í viðvæmu söluferli
Arion banki er sem stendur í söluferli og til stendur að skrá bankann á markað. Útboðið mun eiga sér stað á Íslandi og í Svíþjóð og verður haldið fyrir lok júní. Hræringar í kringum eignarhald á Arion banka hafa verið mikið til umfjöllunar á undanförnum árum og vakið upp umtalsverða tortryggni, meðal annars á meðal stjórnmálamanna.
Ætla að auka arðsemi mikið
Síðasta uppgjör Arion banka þótti ekki mjög gott. Hagnaður samstæðu bankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 nam 1,9 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár var aðeins 3,6 prósent samanborið við 6,3 prósent fyrir sama tímabil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóðlegum samanburði.
Í tilkynningu sem birt vegna söluferlis bankans um miðjan maí sagði að markmið Arion banka sé að vera með arðsemi eigin fjár sem sé yfir tíu prósent. Til að ná því er líklegt að breyta þurfi fjármögnun bankans mjög með því að greiða út eigin fé og sækja víkjandi lán (sett markmið er að minnka eiginfjárhlutfall úr 23,6 prósent í 17 prósent), minnka rekstrarkostnað umtalsvert (kostnaðarhlutfall er nú 70,8 prósent en sett markmið er að ná því undir 50 prósent) t.d. með því að fækka starfsfólki og ná hóflegum vexti í útlánum sem sé í takti við vöxt í þjóðarframleiðslu á Íslandi í nánustu framtíð.