Skuldir Brims við Landsbankann nema orðið yfir 20 prósentum af eiginfjárgrunni bankans eftir að bankinn fjármagnaði 22 milljarða króna kaup sjávarútvegsfélagsins á ríflega þriðjungshlut í HB Granda.
Frá þessu er greint í Markaðnum í dag, en skuldbinding Brims gagnvart Landsbankanum er nú yfir 45 milljarðar króna en eigið fé Landsbankans, sem íslenska ríkið á um 99 prósent hlut í, nemur um 225 milljörðum króna.
Bankinn er ekki reiðubúinn til þess að lána Brimi fyrir kaupum á stærri hlut, samkvæmt heimildumMarkaðarins, enda gæti þá áhætta hans gagnvart sjávarútvegsfélaginu fljótt farið yfir 25 prósenta leyfilega hámarkið sem kveðið er á um í reglum Fjármálaeftirlitsins.
Í umfjölluninni segir enn fremur að það sé ekki til þess fallið að auðvelda Brimi að fjármagna kaupin, að virði um þriðjungshlutar félagsins í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum er metið nærri tvölfalt meira í efnahagsreikningi Brims heldur í nýlegu verðmati á Vinnslustöðinni.
Fjármögnunin sem bankinn veitti Brimi fyrir kaupum á rúmlega 34 prósent hlut í HB Granda var tekin fyrir hjá bankaráði Landsbankans, að sögn Markaðarins, en ákveðið var að samþykkja hana með ströngum skilyrðum um veðsetningu eigna.
Skuldbinding Brims gagnvart Landsbankanum er samtals yfir 45 milljarðar króna, eða sem nemur meira en 20 prósentum af 225 milljarða króna eiginfjárgrunni bankans, sem gerir sjávarútvegsfélagið að einum stærsta skuldara bankans