Forstjóri Hörpu, Svanhildur Konráðsdóttir, tilkynnti í gær á stjórnarfundi Hörpu að kjör þjónustufulltrúa yrðu leiðrétt og að þau myndu taka mið af þeim samningum sem voru í gildi á síðasta ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hörpu.
Í henni kemur fram að stjórnin telji að þannig sé komið til móts við þá gagnrýni sem Harpa og yfirstjórn hússin, hefur sætt í tengslum við rekstrarhagræðingu, en eins og greint var frá í Fréttablaðinu voru laun þjónustufulltrúa lækkuð á sama tíma og laun forstjóra voru hækkuð.
Breytingin tekur gildi 1. júní og verður tímakaup þá 26,1 prósenti yfir taxta stéttarfélagsins eða að meðaltali 2.935 krónur á klukkustund í yfirvinnu, en stærstur hluti þjónustufulltrúa, eða 85 prósent þeirra, vinnur á kvöldin og um helgar.