Skattbyrði á Íslandi er í meðallagi sé miðað við meðaltalstekjur í samanburði við önnur Norðurlönd. Jaðarskattar geta hins vegar orðið verulega háir á Íslandi.
Þetta er meðal þess sem lesa má um í ítarlegri grein sem Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, skrifar í Vísbendingu sem kemur til áskrifenda á morgun.
Í greininni er fjallað ítarlega um skattkerfið, og hvernig það kemur út í samanburði við Norðurlöndin.
„Orsök þess að jaðarskattar geti í raun orðið verulega háir innan íslenska skatta- og tilfærslukerfisins er sú, að skattheimtan á sér stað á tveimur stöðum, hjá skattstjórum annars vegar og hjá Tryggingarstofnun hins vegar, þó svo skattagrundvöllurinn sé að miklu leyti sá sami. Ellilífeyrisþegi með lífeyristekjur umfram skerðingarmörk og sem fær til dæmis 50 þúsund krónur í tekjur fyrir prófayfirsetu verður fyrir því að lífeyrisgreiðsla til hans lækkar um 22.500 krónur, jafnframt því sem skattgreiðsla nemur 18-23 þúsund krónum. Af 50 þúsund krónunum standa þá aðeins eftir 4-10 þúsund krónur. Vandinn liggur í þeirri reglu að íraun eru skattheimtumennirnir tveir,“ segir meðal annars í grein Þórólfs.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.