Þjóðarleiðtogar víða um heim, ekki síst í Evrópu, hafa harðlega gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta og bandarísk stjórnvöld, fyrir að setja á sértæka tolla á innflutt stál og ál. Tollurinn er 25 prósent á innflutt stál og 10 prósent á innflutt ál, en ákvörðunin um hækkunina á tollunum tekur gildi í dag, og nær til Evrópusambandsins, Kanada og Mexíkó.
Í yfirlýsingu frá Jean-Claude Junker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að ákvörðunin um að leggja á fyrrnefnda tolla sé óásættanleg og að Evrópusambandið muni taka málið upp innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar enda samræmist hún ekki alþjóðlegum viðskiptasamningum. Þá er jafnvel talið að Evrópusambandið muni bregðast við með tollum sem beinast gegn Bandaríkjunum.
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC segir að Macron Frakklandsforseti hafi hringt í Bandaríkjaforseta og sagt að þetta væru mikil mistök.
FAIR TRADE!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 31, 2018
Svipaðar raddir hafa heyrst víða um heima, meðal annars í Bretlandi, þar sem aðgerðir Bandaríkjastjórnar eru sagðar vanhugsaðar og feli í sér verndarstefnu á kostnað hagsmuna heildarinnar.
Heildarinnflutningar á stáli og áli frá Evrópu, Kanada og Mexíkó til Bandaríkjanna í fyrra, nam 23 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2.500 milljörðum króna. Innflutningurinn nam í heild um 48 milljörðum Bandaríkjadala.
Aðgerðir bandarískra yfirvalda eru einnig umdeildar í Bandaríkjunum, en margir telja aðgerðirnar til þess fallnar að hefta frelsi í viðskiptum og grafa undan samkeppnishæfni atvinnugreina sem byggja meðal annars á úrvinnslu úr stáli og áli. Í versta falli geti kostnaður aukist hratt, rekstur versnað og störfum þannig fækkað.