Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SGS) segja að frumvarp sem lækkar veiðigjöld á útgerðir um 1,7 milljarð króna í ár sé „skref í rétta átt“. Samtökin telja hins vegar að frekar eigi að miða við veiðigjöldin við þá niðurstöðu sem sett var fram í skýrslu sem Deloitte vann fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og spálíkan veiðigjaldsnefndar skilaði af sér. Þau eru einnig mótfallin því að sértækir afslættir á veiðigjöldum séu veittir minni útgerðum, líkt og lagt er til í frumvarpinu. Þetta kemur fram í umsögn SFS, sem skilað var inn í gær, um frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um lækkun veiðigjalda sem lagt var fram á miðvikudag.
Ef veiðigjaldið yrði endurreiknað á grundvelli þess myndi það fara úr tíu milljörðum króna í ár í 7,2 milljarða króna, og þar með lækka um 2,8 milljarða króna. Í ljósi þess að um yrði að ræða krónutölulækkanir á gjaldi sem lagt er á hverja tegund fisks sem er veidd myndi uppistaðan af lækkun veiðigjalda lenda hjá stærstu útgerðum landsins.
Skref í rétta átt en ekki nóg
Í umsögn SFS segir að með frumvarpinu sé að hluta til brugðist við einni forsendu sem samtökin telja ranga í reiknigrunni veiðigjalds, þ.e. að tekið sé mið af afkomu greinarinnar fyrir tveimur til þremur árum. „Flestir sem hafa tjáð sig um gjaldtöku í sjávarútvegi, hvar sem í stjórnmálaflokkum þeir standa, hafa tekið undir þennan ágalla. Áhrif hans eru sérstaklega slæm þessi misseri, þegar rekstrarskilyrði í sjávarútvegi eru erfið og allt önnur en þau voru árið 2015. Að því leyti telja SFS að frumvarpið feli í sér skref í rétta átt. Ef ætlunin er hins vegar að færa gjöldin nær í tíma, þá fylgir frumvarpið ekki þeirri reglu heldur gengur skemur.“
Á móti afslætti fyrir minni útgerðir
Í umsögninni kemur einnig fram að SFS sé almennt mótfallin hvers kyns sértækum afsláttum eða ívilnunum. Samtökin telja slíka ekki samræmast þeirri meginreglu að gjald fyrir nýtingu auðlindar skuli vera það sama óháð því hver nýtir. Rýmkun svokallaðs persónuafsláttar, sem nýtist minni útgerðum, á að lækka álögð veiðigjöld eftir lækkun úr 8,6 milljörðum króna í 8,3 milljarða króna, eða um 300 milljónir króna.
SFS hefur óskað eftir því að eiga fund með atvinnuveganefnd til þess að fara munnlega yfir athugasemdir sínar.
Frumvarp atvinnuveganefndar kom fram á miðvikudag þegar örfáir dagar voru eftir af starfsáætlun þingsins. Mikil andstaða hefur verið við frumvarpið og vinnulagið í kringum það hjá stærstum hluta stjórnarandstöðunnar og því hefur ekki tekist að fá samþykki fyrir flýtimeðferð þess á þingi. Búist er við því að umræður um málið haldi áfram á þriðjudag.